144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:55]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á sama hátt og hv. formaður atvinnuveganefndar hefur komið málinu inn eins og hann gerði, þ.e. bakdyramegin, getur hann ásamt meiri hlutanum, sem virðist greinilega styðja þetta og vera mjög umhugað um að þessi leið verði farin, ákveðið að þessi kostur fari í virkjun. Hvað fá þingmenn langan tíma til að ræða málið? Hálftíma. Þingmenn fá hálftíma til að ræða það ef ríkisstjórn Íslands sem nú starfar ákveður að setja fjóra kosti í virkjun í viðbót. Finnst fólki það boðleg málsmeðferð? Hefði ekki verið nær að leggja fram lagafrumvarp sem fengi þrjár umræður ef fólki er svona umhugað um að koma sem flestu í virkjun?

Ég tek undir þau orð sem hér voru sögð áðan að þeir ættu að hafa manndóm í sér til þess að afnema rammaáætlun ef þeim hugnast hún ekki. Þeir hafa nægan meiri hluta til þess ef þeir vilja fara í þá styrjöld sem því fylgir. Það er alveg á hreinu.

Þannig að ef hæstv. ráðherra vill taka undir það með umhverfisráðherra, að þetta sé boðleg meðferð — (Forseti hringir.) sem hún hefur ekki tjáð sig um. Er hún sátt (Forseti hringir.) við þá málsmeðferð sem átti sér stað í morgun, burt séð frá því hvort bíða eigi (Forseti hringir.) í eitt ár eftir einhverjum tillögum eður ei? Málsmeðferðin hér (Forseti hringir.) er það sem skiptir máli.