144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Vinna við rammaáætlun hófst ekki í fyrra. Hún hófst ekki á síðasta kjörtímabili. Vinnan hefur staðið í meira en 20 ár. Síðan var ferlið um meðferðina innsiglað hér með lögum um rammaáætlun í þverpólitískri sátt.

Ef málsmeðferð hv. þm. Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar, nær fram að ganga er búið að henda allri þeirri vinnu. Að þeirri vinnu komu alþingismenn, ráðherrar, sveitarstjórnarmenn, leikmenn og sérfræðingar í tugum. Búið er að leggja ómælda vinnu undir, góða vinnu, sem við eigum ekki að henda út um gluggann í einhverjum svona skyndiákvörðunum heldur skulum við fara eftir ferlinu og hlusta á hæstv. umhverfisráðherra því að hún mælir með því að við höldum okkur við ferlið sem við vorum búin að sammælast um. Og það skulum við gera.