144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Þegar maður hlustar á þessa umræðu veltir maður fyrir sér hvort þingmenn viti almennt hvers konar stofnun Alþingi er. (Gripið fram í: Veist þú það?) (Gripið fram í: Segðu okkur það.) Ég held að ég viti meira um það en margir aðrir sem hafa verið hér mjög lengi. (Gripið fram í: Segðu okkur það …) Ég veit örugglega meira en margur hér um það. (Gripið fram í: Komdu með það.) Ég get alveg sagt ykkur að það er alveg augljóst að málsmeðferðarreglurnar í lögunum um rammann snúa auðvitað að stjórnsýslunni. Þegar mál kemur til þingsins gilda auðvitað þingskapalög og stjórnarskrá — mönnum finnst mjög skrýtið að menn vilji fara að stjórnarskrá, gera bara lítið úr því. — Það er auðvitað þannig sem þetta er.

Menn geta síðan haft einhverja skoðun á því að menn eigi að afgreiða það öðruvísi á þinginu. (Gripið fram í.) Ekki grípa fram í. Þessar málsmeðferðarreglur gilda um stjórnsýsluna. Ef menn eru ekki ánægðir með það geta þeir komið því hér inn, en þingskapalög gilda hér. Og menn geta búið til hvaða frumvarp (Forseti hringir.) sem er, og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson getur auðvitað lagt fram frumvarp um að hafa nærbuxur utan á buxunum. Það væri þá í samræmi við önnur frumvörp sem (Forseti hringir.) frá þeim flokki hafa komið.