144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:20]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi það hér áðan að hann mundi sjálfur prívat og persónulega sjá til þess að sem flestir kæmu að því umsagnaferli sem hann ætlar að setja hugmyndir sínar í.

Það vill þannig til að það eru til lög í landinu um einmitt þetta, þau heita lög um verndar- og orkunýtingaráætlun Í 10. gr. þeirra laga er farið ítarlega yfir verklag og málsmeðferð slíkra tillagna ef þær koma fram, þær hafa reyndar ekki komið fram heldur eru einhverjar hugmyndir á reiki. Þar segir meðal annars um að verkefnisstjórn — ekki hv. þm. Jón Gunnarsson — skuli leita eftir samráði og faglegri aðstoð hjá stofnunum, félagasamtökum, hagsmunaaðilum og öðrum sem málið kunni að varða.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Að liðnum umsagnarfresti og að loknu samráði tekur verkefnisstjórnin afstöðu til fyrirliggjandi virkjanaáforma og kynnir framangreindum aðilum tillögur að verndar- og orkunýtingaráætlun og auglýsir þær með opinberum hætti í dagblaði sem gefið er út á landsvísu, Lögbirtingablaðinu og á vefsíðu sinni.“

Þetta er sem sagt ekki (Forseti hringir.) í höndum atvinnuveganefndar eða einstakra þingmanna, (Forseti hringir.) samkvæmt íslenskum lögum sem voru samþykkt hér á Alþingi, (Forseti hringir.) heldur í mjög ítarlegu ferli sem er lýst hér í 10. gr. laga sem menn ætla sér að (Forseti hringir.) brjóta hægri, vinstri eftir (Forseti hringir.) eigin geðþótta í dag.