144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:29]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er nú raunalegt að þetta mál skuli vera komið aftur á dagskrá með nákvæmlega sama upptakti og síðast. Síðast var það nú þannig að sjálfstæðismenn voru að slást um það hver þeirra væri þess verðugur að verða ráðherra í ríkisstjórninni. En það er ekki alveg ljóst hvaða slagur er á ferðinni akkúrat núna því að eina breytingin sem átt hefur sér stað er sú að í stað þess að leggja til átta kosti eru lagðir til fimm. Það er í raun og veru eini munurinn á málsmeðferðinni, aðdragandum og upplegginu að öllu leyti. Munurinn er að vísu sá að á ráðherrabekknum er ekki bók Össurar Skarphéðinssonar í mörgum eintökum eins og var síðast, en það er samt sem áður þannig, og nokkuð sem við þurfum að muna og halda til haga, að lagarammi sem við setjum okkur sjálf á að vera einhvers virði varðandi framvindu og verklag. Ef þingsályktunartillaga er samþykkt á veikum lagagrunni þá toppar hún ekki gildandi lög.

Ég bið ríkisstjórnarflokkana að velta því fyrir sér hvaða stöðu þingsályktunartillaga hefur með öllum þeim fyrirvörum sem hún býr við, ef (Forseti hringir.) áhöld eru um að lagaforsendur séu skýrar, (Forseti hringir.) þ.e. ef tillögurétturinn er allt í einu (Forseti hringir.) tekinn af ráðherranum sjálfum og (Forseti hringir.) færður á borð formanns atvinnuveganefndar. Hvaða stöðu hefur slík þá slík ákvörðun (Forseti hringir.) og vill meiri hluti (Forseti hringir.) þingsins fara fram (Forseti hringir.) með svona mikilvæga (Forseti hringir.) ákvörðun á svo veikum grunni ef (Forseti hringir.) vilji er til þess að (Forseti hringir.) ganga þessa leið á enda?