144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég sé mig eiginlega knúna til að koma hér aftur eftir yfirferð og söguskýringar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þykir honum það vera svo að orð hæstv. menntamálaráðherra í aðdraganda málsins á sínum tíma (Menntmrh: Hver voru þau?) og hv. formanns allsherjar- og menntamálanefndar um að það væri lýðræðisleg nálgun málsins — ég er ekki að tala um einhverja d'Hondt-reiknireglu, ég er bara að tala um lýðræðislega nálgun málsins — að fjórir fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengju aðkomu að RÚV, að það hafi bara verið eitthvert grín? Er það svo? Er það svo, virðulegur forseti, (Gripið fram í.) að orð hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vega svona þungt á móti þeim orðum og því handsali sem hér eru kláruð og orðum hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur sem flutti samkomulagið í ræðustól Alþingis? Skiptir það engu máli? Og getur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra staðfest hér að ekkert slíkt samkomulag hafi átt sér stað? (Forseti hringir.) Getur hann gert það undir hælnum á hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra? Og þá ekki í fyrsta sinn.