144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:08]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt hér og öll þessi umræða ber með sér að það er fullkomið ósamkomulag um þetta mál og það eru túlkanir á því hvað hér hafi farið fram. (SSv: Var ekkert samkomulag?) Nei, það er alveg augljóst að það er ekki, virðulegi forseti. (SII: Af hverju var fjölgað í stjórninni?) Undir meðferð málsins var lögð fram tillaga um að fjölga um tvo (Gripið fram í.) frá sjö. Ég hef aldrei látið nein orð um það falla að standa ætti einhvern veginn öðruvísi að skiptingunni heldur en með þeim hætti sem birtist í þingsköpum og eftir þeim reglum sem við höfum um kosningu í nefndum. Það er fráleitt, virðulegi forseti, að leggja upp með að það sé einhvers konar form af valdníðslu eða meirihlutaofstæki að hér sé kosið í þingsalnum, hér falli atkvæði og það endurspegli síðan þingstyrk þannig að sú regla sem við höfum, sem við köllum d'Hondt-reglu, nái fram að ganga eins og í öðrum atkvæðagreiðslum. Það er ekki hægt að nálgast þetta mál þannig að það sé einhver valdníðsla (Gripið fram í.) í því, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)