144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég vonast til þess að við getum farið að hefja þessa margumtöluðu atkvæðagreiðslu. En vegna þess að hér var vitnað til minna orða í þingsal þá er það auðvitað rétt og þingtíðindi bera það með sér. Ég gaf yfirlýsingu um að það væri samkomulag milli flokka að hlutföll yrðu þau sömu milli stjórnar og stjórnarandstöðu við þessa kosningu. Það er rangt sem þingflokksformaður Vinstri grænna fór fram með að ég hefði þar vitnað til orða menntamálaráðherra. Það gerði ég ekki. Það er hægt að lesa það í þingtíðindum. Ég vitnaði til samkomulags þingflokksformanna stjórnarflokkanna, ég hafði fullvissað mig um að slíkt samkomulag væri í gildi. Þeir þingflokksformenn komu síðan hér upp þegar ljóst var að þetta voru mistök og rangt og báðu mig persónulega afsökunar á því að hafa látið mig fara fram með fullyrðingu sem væri röng.

En það er full ástæða til þess að þingflokksformenn flokkanna, þegar þeir vitna í ræður annarra, að þeir fullvissi sig um að þar sé sagt það sem þeir fullyrða að sagt sé, vegna þess að þetta er rangt. Fólk verður auðvitað að lesa sér aðeins til áður en það fer með slíka staðleysu í ræðustól.