144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst full ástæða til að rifja enn frekar upp, bara svo að því sé algjörlega haldið til haga, hver atburðarásin var í upphafi kjörtímabilsins. Í stjórn RÚV áttu að vera sjö fulltrúar. Svo var gert samkomulag og allir voru sammála um það í allsherjar- og menntamálanefnd að þeir ættu að vera níu, allir flokkar sammála um það. Þegar hv. formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Unnur Brá Konráðsdóttir, kynnti þá breytingartillögu sagði hún, með leyfi forseta:

„Mig langar að taka fram hér að það er samkomulag um að það sé fjölgað en hlutföllin verði þó þau sömu þannig að stjórnarflokkarnir skipi fimm en stjórnarandstaðan fjóra. Þetta er hugsunin á bak við það ákvæði, að reyna að ná meiri breidd inn í stjórnina.“

Þetta hljómar eins og tónlist í mínum eyrum. Þetta er góður rökstuðningur fyrir því að hafa stjórnina níu manns, (Forseti hringir.) fá meiri breidd inn í hana. Ég hef aldrei heyrt rökstuðninginn fyrir því af hverju var (Forseti hringir.) hvikað frá þessum góðu áformum.