144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Af því hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er búinn að hafa fyrir því að koma hér upp og segja einhver orð og sömuleiðis hæstv. menntamálaráðherra væri nú gott ef þeir kæmu aftur hingað í ræðustól og segðu okkur hvers vegna þeir leggja svona mikla áherslu á að gera þrjár af sínum þingkonum að ómerkingum sem stóðu að því samkomulagi sem lýst hefur verið hér af hv. þingmanni á undan, hvers vegna þeir leggja það á sig að kalla út allt sitt lið í hvert skipti sem kosið er um Ríkisútvarpið til þess að ná nú örugglega sínum aukna meiri hluta í gegn. Hvers vegna að leggja svona mikið á sig, eins og menn eru augljóslega að gera í þriðja skiptið núna, til þess að koma sex manns að, 67%, í stjórn Ríkisútvarpsins? Segið okkur hvers vegna. Hvað er það, virðulegi forseti, sem veldur því að ríkisstjórnin telur sig þurfa að hafa 67% stjórnarmanna í Ríkisútvarpinu og leggja allt (Forseti hringir.) þetta á sig? Það væri ágætt að fá svar við því vegna þess að ég ætla að ítreka það: (Forseti hringir.) Mér finnst þetta óhuggulegt.