144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:24]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég bið þingmenn að spyrja sig nokkurra spurninga. Af hverju var ákveðið að fjölga í stjórninni úr sjö í níu? Af hverju var samkomulag um þá breytingartillögu meðal allra fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd? Var það til þess að Framsóknarflokkurinn gæti fengið þrjá fulltrúa og Sjálfstæðisflokkurinn þrjá, (Gripið fram í.) að flokkar sem fengu um 51% í kosningum gætu fengið 67% fulltrúa í þessari mikilvægu stofnun? Var það til þess? Var það efni samkomulagsins í allsherjar- og menntamálanefnd? Eða getur verið að menn hafi gert samkomulag í allsherjar- og menntamálanefnd um að fjölga úr sjö í níu vegna þess að það þyrfti að auka breidd fulltrúa í stjórninni, að fyrst menn ætluðu að hafa pólitískt skipaða stjórn skyldu þá fulltrúar allra flokka á þingi eiga fulltrúa í þessari stjórn? Getur ekki verið að það hafi verið grundvöllur samkomulagsins?