144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um það frumvarp sem hefur verið lagt fram. Það er hins vegar þess eðlis að óhjákvæmilegt er að hafa um það nokkur orð. Annars vegar er um að ræða ýmsar breytingar sem, eins og síðasti ræðumaður bendir réttilega á, verðskulda nokkra umræðu og að sumu leyti frekari skýringar, svo sem um skipulagsbreytingar innan Stjórnarráðsins.

Ég ætla að byrja mál mitt á að fjalla um stóra þáttinn sem er hin opna heimild sem hér er gert ráð fyrir að lögfest verði til ráðherra til að ákveða staðsetningu opinberra stofnana. Í núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands frá 2011 er ekki mælt fyrir um heimild ráðherra, en vísað er til þess í greinargerð með þessu frumvarpi að slík heimild hafi áður verið í lögum og hafi verið sett inn árið 1999 í kjölfar dóms Hæstaréttar árið 1998 um flutning Landmælinga Íslands frá Reykjavík til Akraness. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Hér er því lagt til, með hliðsjón af framangreindu, að aftur verði kveðið á um almenna heimild til handa ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra og er lagt til að ákvæði eldri laga verði tekið upp óbreytt. Er talið rétt og eðlilegt að umrædd lagaheimild verði endurvakin enda hefur verið litið svo á að ákvörðunarvald um þetta sé eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra gagnvart stofnunum sem undir hann heyra.“

Ég vil gera við þetta sérstaka athugasemd. Ég tel ekki að ákvörðunarvald ráðherra um hvar stofnun sé niður komin landfræðilega sé hluti af eðlilegum og óhjákvæmilegum stjórnunarheimildum ráðherra gagnvart stofnunum. Ákvörðun um staðsetningu stofnunar hlýtur að byggja á efnislegu mati og festa í stjórnsýsluframkvæmd og þörfin fyrir aðgang almennings að góðri opinberri þjónustu hlýtur að ráða efnislegum ákvörðunum um staðsetningu stjórnarstofnana, ekki stjórnunarlegur smekkur ráðherra hverju sinni. Það kunna að vera efnisrök fyrir því að stofnanir séu staðsettar utan Reykjavíkur og það geti helgast vegna eðlis starfs þeirra, vegna þess að starf þeirra taki til t.d. atvinnugreina sem sérstaklega eru öflugar utan höfuðborgarsvæðisins eða höfuðumfang starfsemi þeirrar sé annars staðar, en það hlýtur þá að byggja á efnislegu mati. Það er ekki hluti af almennum stjórnunarheimildum ráðherra gagnvart stofnunum.

Ef ákvæðið er endurvakið jafn opið og það var í fyrri lögum — með þessari röksemdafærslu óttast ég að með því sé efnt á nýjan leik til þess að boðið sé upp á hringl með staðsetningu stofnana í kjördæmapólitískum tilgangi en ekki með tilliti til þarfa þjóðarinnar, þarfa almennings, og að ekki verði tekið tillit til hagsmuna starfsfólks. Það er vert að hafa í huga að hagsmunir starfsfólks eru ekki það sem á að ráða, þótt þeir séu mikilvægir, heldur grundvallarhugmyndin um hvar stofnuninni verði best út frá verkefnum hennar fundinn staður.

Nú hefur mikið verið í umræðu klúður ríkisstjórnarinnar varðandi fyrirhugaðan flutning Fiskistofu þar sem hæstv. forsætisráðherra fór fram með miklum flumbrugangi og tilkynnti flutning stofnunarinnar án þess að hafa rætt það við ríkisstjórn, án þess að það hafi verið rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna, það hef ég fengið staðfest frá þingmönnum úr báðum stjórnarflokkum, og án þess að lagaheimild væri fyrir flutningnum. Þess vegna eru þær fyrirætlanir nú til meðferðar hjá umboðsmanni Alþingis, enda ákvörðun um flutning stofnunarinnar bersýnilega löglaus að óbreyttum lögum.

Svo maður fari yfir það mál út af fyrir sig er vert að hafa í huga að í tíð ríkisstjórnar sömu stjórnmálaflokka fyrir rétt rúmum 10 árum síðan var stofnunin flutt frá Reykjavík til Hafnarfjarðar. Af hverju? Vegna efnislegs mats á því hvar stofnuninni væri best fyrir komið? Nei. Vegna greiningar á því hvar starfsemi hennar kallaði á að hún ætti helst að vera niður komin? Nei. Vegna þess að þáverandi sjávarútvegsráðherra var úr Hafnarfirði. Það var eina efnislega forsendan fyrir flutningi Fiskistofu til Hafnarfjarðar. Þess vegna er Fiskistofa í Hafnarfirði nú.

Nú sitja sömu flokkar í ríkisstjórn og nú vill forsætisráðherrann styðja við veg síns kjördæmis, ég skil það að hann sem nýr þingmaður Norðausturkjördæmis vilji sýna því kjördæmi einhvern sóma, og því á að flytja stofnunina þangað.

Endurvakning þessa ákvæðis með jafn opnum hætti og hér er gert ráð fyrir býður upp á eilífa hringrás tilviljanakennds flutnings stofnana vítt og breitt um landið, sem er engum til góðs. Ef þessir tveir stjórnmálaflokkar töldu það samrýmast stjórnarstefnu sinni fyrir 10 árum síðan að flytja Fiskistofu til Hafnarfjarðar, af hverju telja þeir þá núna að mjög brýnt sé að hún fari til Akureyrar? Munu þeir kannski telja eftir fimm ár eða 10 ár að henni sé best fundinn staður á Egilsstöðum? Allir sjá hversu hættuleg þessi þróun er. Svona opin heimild til að ákveða staðsetningu stofnana er kúgunartæki í garð ríkisstofnana í höndum ráðherra.

Ef ráðherrar öðlast skyndilega algjörlega óheftar heimildir til þess að valsa með stofnanir um landið geta þeir hótað stofnunum, sem fara sínu fram í samræmi við lögbundnar skyldur sínar, tilflutningi og þar með vegið að starfsöryggi starfsmanna og forstjóra stofnananna án þess að grípa til þeirra lögmæltu úrræða eða vera bundin af þeim lögmæltu takmörkunum sem ráðherra er almennt bundinn af ef hann vill hafa afskipti af stofnunum sem undir hann eru settar. Ráðherrar geta ekki ákveðið að hrókera til forstjórum stofnana sem undir þá heyra til og frá án takmarkana, en hér opnað fyrir opna heimild til þess að flytja stofnunina hvert sem er.

Það er sá þáttur sem ég hef þungar áhyggjur af, vegna þess að Fiskistofa er mjög gott dæmi um stofnun sem hefur nú þegar verið flutt milli sveitarfélaga á kjördæmapólitískum forsendum eins ráðherra og nú stendur til að flytja hana aftur á forsendum annars ráðherra, en vel að merkja úr sömu flokkum. Þessi opna heimild skapar því mikla óvissu. Hún skapar líka óvissu fyrir Akureyrarbæ í móttöku stofnunarinnar. Ég held að menn mundu hafa mikinn áhuga á því á Akureyri að taka vel á móti Fiskistofu og styðja við uppbyggingu stofnunar hennar, en með lögfestingu þessarar almennu heimildar er verið að tjalda til einnar nætur og skapa fullkomna óvissu um það hvort Fiskistofa verður þar í tvö ár, þrjú ár, fjögur ár, 10 eða 12 með tilheyrandi óvissu við að laða starfsmenn að stofnuninni svo fluttri. Þess vegna er þetta svo varhugaverð byggðastefna, því að hún felur ekki í sér að verkefni sem eðli málsins samkvæmt er auðvelt að flytja og eiga náttúrulegt heimkynni í hinum dreifðu byggðum séu flutt til, heldur er verið með valdsmannshætti að skáka fólki til eins og peðum á taflborði með það fullkomlega opið að næsti ráðherra sem taki við skáki fólkinu eitthvert allt annað.

Sá vandi sem ég sé stærstan við þessa opnu flutningsheimild er að hún skapar ekkert öryggi fyrir þær stofnanir sem svo eru fluttar. Ég hefði haldið eðlilegra ef hæstv. forsætisráðherra vildi sýna sínu kjördæmi sóma, vildi styðja við fjölgun háskólamenntaðra starfa á Akureyri, að ræða það hér varðandi Fiskistofu sérstaklega, þvert á flokka, hvort það væri samkomulag um að flytja hana til Akureyrar, hvort við gætum gert um það víðtækt samkomulag, án þess að setja inn almenna opna heimild til þess að skáka öllum ríkisstofnunum til. Aðferðafræðin sem hæstv. ráðherra kýs að beita hér skapar enga tryggingu fyrir því að nokkur annar stjórnmálamaður í landinu sé bundinn af þessari ákvörðun en forsætisráðherrann sjálfur og skapar þar af leiðandi fullkomna framtíðaróvissu fyrir það fólk sem mun kjósa að finna sér störf hjá Fiskistofu á Akureyri verði af flutningnum.

Virðulegi forseti. Ég tel líka mjög mikilvægt að hugsa á annan hátt um uppbyggingu stjórnsýslunnar og dreifingu hennar um land. Mér finnst í endurupptöku þessarar opnu heimildar í lög ekki felast nein heildstæð hugsun um það hvað það þýði fyrir Reykjavík sem höfuðborg. Ef mönnum finnst eðlilegt að stofnanir séu almennt settar niður hér og hvar í landinu þá veikir það auðvitað stöðu Reykjavíkur sem höfuðborgar og miðstöðvar stjórnsýslu. Það hefur afleiðingar. Það eru til dæmis miklir áhugamenn í flestum flokkum um að það sé flugvöllur í Reykjavík. Rökstuðningurinn fyrir þeirri kröfu er staða Reykjavíkur sem höfuðborgar. Ef menn ætla að breyta eðli hugmyndarinnar um höfuðborg eru þeir líka að draga úr kröfunum sem hægt er að gera til Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar. Það er ekki bæði hægt að veikja Reykjavíkurborg sem höfuðborg, flytja stofnanirnar burt úr höfuðborginni, og ætlast til að borgin axli skyldur sem höfuðborg samt sem áður.

Ég heyri líka og mikið frá félögum mínum á landsbyggðinni sem búa ekki í byggðakjörnunum stóru að þeir meta það að hafa höfuðborg og finnst það ekki heillandi framtíðarsýn að ríkisstofnunum sé sáldrað vítt og breitt um landið þannig að það þurfi að aka hringinn til að fá úrlausn mála sinna. Það er ákveðið hagræði í því fólgið að fá úrlausn mála á einum stað. Mér finnst skorta hér heildarhugsun um hvaða áhrif það kann að hafa á Reykjavík sem höfuðborg, á stöðu hennar sem höfuðborgar, ef það verður búin til opin heimild til að flytja stofnanir út á land. Hvert er þá efnislegt inntak skyldunnar sem Reykjavík ber sem höfuðborg?

Virðulegi forseti. Ég er að verða kominn að endalokum ræðutíma míns og hef aðeins fengið tækifæri til að ræða um og fara yfir þetta Fiskistofumál. Ég mun þess vegna koma í aðra ræðu og fjalla um aðra þætti þessa frumvarps sem ég hef áhuga á að tæpa á.