144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við höfum hér til umræðu 434. mál á þskj. 666, frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, með síðari breytingum. Ég er enn þá að líta yfir allt þetta mál og í raun að átta mig á því nákvæmlega hvað mönnum gangi til með öllum breytingunum. Kannski er best að byrja á að tala um heimild til ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana sem undir hann heyra, nema á annan veg sé mælt í lögum. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þetta ákvæði hafi verið til staðar í lögum á sínum tíma en hafi hins vegar verið afnumið, að því virðist fyrir slysni ef ég skil rétt, og fyrir vikið þurfi að setja þetta aftur inn. Það er kannski bara óheppileg tímasetning miðað við þær fregnir sem komu seinasta sumar um að fyrir lægi að flytja Fiskistofu til Akureyrar, aðgerð sem sá sem hér stendur væri ekki sjálfkrafa á móti ef málefnalegar ástæður væru fyrir því en ég verð að segja eins og er að mér fannst á þeim tíma og finnst enn ekki mikið um röksemdir fyrir þessu, hvorki þegar kemur að tölum um atvinnuleysi á þessum stöðum, þ.e. í Hafnarfirði og á Akureyri, né neinum öðrum ástæðum sem ég gæti ímyndað mér að yrði forsenda slíks flutnings. Ég hef satt best að segja einfaldlega ekki heyrt fullan rökstuðning fyrir þessu. Ég skil það svo sem alveg, eins og sá hv. þingmaður sem hér talaði á undan mér, ef hæstv. forsætisráðherra vill gera kjördæminu sínu vel, ég skil það, en mér finnst það ekki málefnaleg ástæða, ég verð að segja það eins og er og er ég þó allur af vilja gerður til að aðstoða Norðausturkjördæmi eins og öll önnur kjördæmi, hvort sem það er Akureyri, Reykjavík eða annað. Ég lít á mig sem þingmann alls landsins þótt ég sé að nafninu til þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður.

Þegar þær fregnir bárust að til stæði að flytja Fiskistofu til Akureyrar voru starfsmenn ekki hressir með það. Það getur ekki styrkt starfsemi mikilvægrar stofnunar eins og Fiskistofu að sú þekking sem þar hefur verið byggð upp fari út um allt, ýmist úr stofnuninni og þá væntanlega eitthvað annað, vegna þess að fullt af fólki vill einfaldlega ekkert flytja, vill búa þar sem það býr og er kannski bara sátt í Hafnarfirði, í hinu margrómaða Suðvesturkjördæmi.

Kannski er það tilviljun, eins og ég segi, að frumvarp um Stjórnarráð Íslands komi á þessum tíma. Það lítur þó út eins og það sé gert sérstaklega til þess að flytja Fiskistofu en ég verð að segja að það lítur ekki þannig út þegar maður les það. Það virðist í fljótu bragði hafa verið hugsað eitthvað lengur en það. Þó verður maður alltaf að spyrja sig þegar maður gefur hæstv. ráðherra heimild, hvort sem það eru þessir hæstv. ráðherrar eða einhverjir aðrir, hvort sagan bendi til þess að viðkomandi muni fara með það vald af nærgætni. Ég verð að segja að mér fannst það ekki tilfellið seinasta sumar. Mér finnst ekki hafa verið nóg samráð við starfsmenn Fiskistofu og mér finnst rökstuðningurinn ekki góður, sá litli sem ég hef heyrt.

Það eru fleiri breytingar við þetta frumvarp sem ég rakst á nýlega og velti fyrir mér hvers vegna nákvæmlega þær breytingar væru gerðar. Mig langar sérstaklega að nefna 10. gr. frumvarpsins, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:

a. Upplýsingalög, nr. 140/2012, með síðari breytingum: 1. málsl. 2. mgr. 27. gr. laganna orðast svo: Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða.“

Ef maður ber þetta saman við 1. málslið 2. mgr. 27. gr. laga 140/2012, þeirra laga sem er verið að breyta, stendur þar, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að mikilvægum upplýsingum sé haldið til haga, svo sem með skráningu fundargerða eftir því sem við á.“

Þarna eru sérstaklega tekin fram samskipti við almenning. Ég velti fyrir mér hversu víðtækt þetta sé hugsað. Ég sé ekki í fljótu bragði að það sé útskýrt tæmandi í greinargerð. Mér er þó minnisstæð skýrsla hjá lögreglunni sem var gerð um mótmælin 2009–2011. Þar var ýmislegt skrifað um ýmsa aðila og hefur leikið á vafi um hvort í raun sé lögmætt að halda til haga svo viðamiklum upplýsingum um almenning. Ég þori ekki að fullyrða að það sé lögfræðilegur vafi á því vegna þess að þeirri umræðu er ekki lokið. Þess vegna finnst mér þessi klausa heldur óþægileg og geri fastlega ráð fyrir að hún verði rædd í nefnd og þá sérstaklega tilefnið, hvers vegna það beri að skrá sérstaklega, en minni á að sú skýrsla var ekki án rökræðna og ekki án ósættis. Þar má alveg nefna að hv. 12. þm. Suðvest. er þar margsinnis nefnd á nafn, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, og er ekki par sátt við allt sem þar stendur, enda hljómar það ef maður les eitthvað úr skýrslunni í fljótu bragði eins og einhvers konar saga frá fyrst og fremst einum tilteknum lögreglumanni. Það hefur ekki verið einsýnt að svona skýrslur séu eðlilegar enda veit ég ekki til þess að aðrar slíkar hafi verið gerðar. Mér skilst af samtölum mínum í nefnd að þær séu ekki venjubundnar og að núverandi háttvirtur lögreglustjóri kannist hvorki við að svona skýrslur hafi verið gerðar né að slíkt verklag sé til staðar né að það eigi að taka slíkt verklag upp. Með öðrum orðum, það virðist vera einhvers konar einsdæmi og mér þykir mikilvægt að við ræðum það sérstaklega.

Annað sem vekur athygli mína við þetta frumvarp er 8. gr., svohljóðandi, með leyfi forseta:

„25. gr. laganna orðast svo:

Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.

Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal ráðuneytið hafa reglulegt samráð við þau embætti.“

25. gr. laga nr. 115/2011, sú sem hér er verið að breyta, er ansi miklu viðameiri. Ég veit ekki hvort ég hef tíma til að lesa hana upp, jú, jú, ég kæmi henni svo sem fyrir, en þá gæti ég sagt lítið annað. Þar kemur fram að forsætisráðherra skuli skipa til þriggja ára í senn samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna. Í nefndinni eiga sæti formaður, skipaður án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Félags forstöðumanna ríkisstofnana, fulltrúi ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins, tveir fulltrúar samtaka ríkisstarfsmanna og tveir aðrir valdir á grundvelli sérþekkingar sinnar á stjórnsýslu og siðfræðilegum efnum.

Mér finnst þarna verið heldur mikið tekið út og frekar einfalt vald sett í staðinn, þ.e. hæstv. forsætisráðuneyti. Þá get ég ekki annað en munað eftir öðru álitamáli sem er í daglegu tali kallað „lekamálið“ þar sem spurningar vöknuðu um siðareglur, gildi þeirra o.s.frv. Ég ætla ekki að rekja það frekar, en mér finnst við þurfa að ræða þetta alveg sérstaklega. Ef við ætlum að hafa siðareglur finnst mér mikilvægt að það sé á hreinu hvernig þær eru túlkaðar á trúverðugan hátt. Þetta er sagt með þeim fyrirvara að eftir er að ræða þetta allt saman í nefnd og hugsanlega er einhver góð ástæða fyrir þessu sem mér er enn sem komið er óljós. Mér þykir þó heldur mikið hér tekið út.

Ég verð að lesa meira úr þessari grein sem er verið að skipta út fyrir stuttu greinina, þ.e. 2., 3. og 4. mgr. 25. gr. laga 115/2011, með leyfi forseta:

„Forsætisráðuneytið sér nefndinni fyrir starfsaðstöðu.

Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar eru:

a. að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu,

b. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laga þessara og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gefa stjórnvöldum ráð um túlkun þeirra,

c. að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar,

d. að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og öðrum tiltækum upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu,

e. að taka þátt í samstarfi við félagasamtök, stofnanir og embætti hér á landi og erlendis sem vinna gegn spillingu í opinbera geiranum,

f. að gefa forsætisráðherra árlega skýrslu um starf sitt þar sem komi fram ef ástæða þykir til tillögur til stjórnvalda um frekari aðgerðir til að efla traust á stjórnsýslu ríkisins, draga úr hættu á spillingu og vanda betur til verka í stjórnsýslunni. Skýrslan skal lögð fyrir Alþingi.

Til þess að tryggja samræmi við störf umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar skal samhæfingarnefndin hafa reglulegt samráð við þau embætti.“

Þessu öllu saman er skipt út fyrir utan seinustu setninguna sem er eins nema skipt er út samhæfingarnefndinni fyrir forsætisráðuneytið. Í staðinn fyrir restina sem ég þuldi hérna upp kemur, með leyfi forseta:

„Forsætisráðuneytið gefur stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað, stendur fyrir fræðslu um þær innan Stjórnarráðsins og fylgist með að þær nái tilgangi sínum.“

Heldur miklu af því sem mér sýnist í fljótu bragði góð lagaákvæði er skipt út fyrir heldur lítið, reyndar nánast ekki neitt, og sömuleiðis þykir mér óþægilegt, svo meira verði ekki sagt, að það sé forsætisráðuneytið sjálft sem sé einfaldlega í því að túlka þetta, ef ég skil þetta rétt. Þetta eru spurningar sem þarf alltaf að spyrja ef maður ætlar að fara út í siðareglur á annað borð: Hver sér um að túlka þær? Hvernig munu þær raunverulega virka? Ef túlkunarvaldið er í höndum einhvers sem hefur hagsmuni af túlkuninni hlýtur það að vekja tortryggni. Alveg burt séð frá trausti til sitjandi hæstv. ríkisstjórnar eða einstakra hæstv. ráðherra innan hennar almennt til framtíðar séð þegar næsta vonda vinstri stjórn kemst til valda mundi maður halda að núverandi ríkisstjórn vildi á þeim tíma líka geta notið trausts og treyst því að túlkanir á siðareglum séu samkvæmt trúverðugu ferli. Ég sé ekki betur en að það ferli sem er nefnt í 25. gr. laganna sem er verið að breyta, nr. 115/2011, sé heldur trúverðugt. Þetta er heldur efnismikið og heldur nákvæmt og þess vegna hvái ég yfir því að þessu sé breytt.

Nú er ég næstum búinn með tíma minn en að því sögðu er hér kannski ýmislegt sem þarf að skoða betur í nefnd, svo sem 4. gr., með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „formleg“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: mikilvæg.“

Ég velti þessu fyrir mér. Nú er ég búinn með tímann, ég kem að þessu í seinni ræðu minni og velti þá upp spurningum um það hvað vaki fyrir mönnum með þeirri breytingu. Ég hef nóg annað að segja um þetta mál en tími minn er liðinn, virðulegi forseti, svo ég lýk máli mínu að sinni.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.