144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er í stuttu máli já, en ég hef ekki mótað mér endanlega skoðun á frumvarpinu enda erum við bara í 1. umr. um málið. Ég er einn af þeim brjáluðu þingmönnum sem telja að þingferlið eigi að vera til þess að fólk skipti um skoðanir af og til, enda þætti mér mjög skrýtið ef skoðanir manns á þingmáli væru undantekningarlaust þær sömu við 3. umr. og þær eru við 1. umr. Mér þykir ábending hv. þingmanns góð og tek hana vissulega til greina.

Það sem vakti fyrst og fremst hjá mér þessa spurningu er sú staðreynd að mér finnst þetta ekki nógu vel útskýrt í greinargerð með frumvarpinu. Það má vel vera að það séu mjög málefnalega og góðar ástæður fyrir þessu ákvæði og öllum til hagsbóta, en mér þykir það í fljótu bragði ekki augljóst og hefði viljað sjá betri útskýringu í greinargerð. Kannski er hún öðrum augljósari en mér, það má vel vera. Það kemur þá væntanlega í ljós við meðferð nefndarinnar á málinu.

Það er samt óþægilegt að fjalla um svona mál, um samskipti við almenning o.s.frv., þegar hin svokallaða skýrsla sem gerð var hjá lögreglunni er enn þá til umræðu. Mér fannst þessi skýrsla óþægileg svo meira verði ekki sagt. Ég tel að þeirri umræðu sé ekki lokið. Mér finnst alveg sjálfsagt að við höfum slíkar uppákomur til hliðsjónar þegar við ræðum skráningar á samskiptum við almenning. Sömuleiðis velti ég fyrir mér hvað nákvæmlega tilheyrir samskiptum við almenning ef samtöl við almenning gera það. Sömuleiðis finnst mér mikilvægt að fólk sé meðvitað um hvað skráð er um það. Það er ekki hægt að hafa það alltaf þannig, ég geri mér grein fyrir því, en mér finnst mikilvægt að fólk hafi tækifæri til að vita hvað er skráð hvar. Það finnst mér gilda um málaskrá lögreglu sem og samskipti við yfirvöld. (Forseti hringir.) Við ákvæði sem þessi vaknar fullt af svona spurningum sem (Forseti hringir.) mér finnst vel þess virði að íhuga vandlega. Ég tel reyndar 1. umr. vera (Forseti hringir.) kjörna til þess.