144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ef þessu er háttað eins og mér heyrist hv. þingmaðurinn telja, hugsanlega um samskipti lögreglu og persónugreinanlegar upplýsingar um hver var hvar klukkan hvað og þar fram eftir götunum, þá er ég hjartanlega sammála því. Ég er líka hjartanlega sammála því að það er rétt að hafa það til hliðsjónar þegar löggjöf um samskipti stjórnvalda við almenning er sett eða breytt. Ég er líka sammála hv. þingmanni um að það þarf að klára þetta mál út af þessari skýrslu sem svo var kölluð. Ég endurtek að ég tel að hún geti ekki borið það heiti því að þetta er ekki skýrsla, þetta er samsafn einhvers sem mér finnst ekki nógu virðulegt til að kalla skýrslu. Það er mjög alvarlegt að þeim upplýsingum hafi verið safnað saman. Persónuvernd átti að skoða það mál. Málinu er ekki lokið af hendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, ég vil bara segja það. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það þarf að ljúka því.