144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tek undir orð hv. þingmanns.

Ef við lítum á greinina sem verið er að breyta þá sjáum við að hún virðist vera útvíkkun á upplýsingasöfnun, sem ég vil halda til haga að er ekkert endilega neikvætt, það er bara mikilvægt að það sé gert á réttum forsendum og með tilheyrandi varnöglum. En málsliðurinn sem um ræðir er þessi, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að mikilvægum upplýsingum sé haldið til haga svo sem með skráningu fundargerða eftir því sem við á.“

Það er ekki ákvæði sem maður mundi halda að ráðuneyti færi að nýta til þess að skrá samskipti við einstakling sem sendir til dæmis inn fyrirspurn sem ég er viss um að er skráð hvort sem er. Auðvitað þarf síðan að svara fyrirspyrjanda eða þegar einhver mætir á svæðið og tjáir skoðun sína eða eitthvað því um líkt. Þetta ákvæði virðist sérstaklega gert fyrir innri vinnu ráðuneytisins og fundargerðir eftir því sem við á eins og stendur, á meðan nýja orðalagið er, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld skulu að öðru leyti gæta þess að haldið sé til haga mikilvægum upplýsingum, m.a. um samskipti við almenning og önnur stjórnvöld, svo sem með skráningu fundargerða eða minnisblaða.“

Þarna eru minnisblöð tilgreind og minnst á almenning meðal annars, þannig að þetta er opnun á skráningu upplýsinga, sem getur enn og aftur verið gott og blessað, en þá er mikilvægt að það sé gert á lögmætum forsendum og auðvitað með tilliti til þess að ástæða sé til að skrá upplýsingar um að vitað sé hvers vegna þær upplýsingar eru skráðar. Það kemur ekki fram í greinargerðinni eftir því sem ég fæ best séð. Nú getur vel verið að lögfróðir einstaklingar geti útskýrt fyrir mér að þarna sé góð ástæða fyrir því hvað liggur að baki. Mér er það ekki ljóst að svo stöddu og vona að það séu ágætisrök fyrir því eða (Forseti hringir.) að ákvæðinu verði breytt. Við sjáum bara til þegar málið fer til nefndar.