144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála þessari spurningu. Hún á að liggja til grundvallar allri ákvarðanatöku, þ.e. hvernig er best að flytja stofnun. Í fyrsta lagi á kannski að spyrja: Er það rétt, miðað við starfsemina, að flytja stofnunina? Ef svarið er já þá spyrjum við okkur hvernig best sé að gera það. Auðvitað eiga þessar spurningar að liggja til grundvallar.

Ég hef aldrei heyrt núverandi ráðherra reyna að svara því hvað varðar Fiskistofu og þá ákvörðun, aldrei heyrt hann reyna að svara þeim spurningum, bara aldrei. Þetta er bara „við eigum þetta og við megum þetta“-stemning eins og ég reyndi að lýsa í ræðu minni áðan.

Ég held að það sé skynsamlegra að hafa þetta eins og tekin var ákvörðun um 2011 og er í núgildandi lögum, þ.e. að ráðherra þurfi að fara með slíka breytingu hér í gegn þannig að við getum reynt að fylgjast með hlutunum, að það sé alla vega einhver öryggisventill og við getum reynt að fylgjast með því hvernig hlutirnir eru gerðir.

Tökum bara dæmi. Ég stóð oft í því á síðasta kjörtímabili að taka ákvarðanir um að reyna að hagræða innan stjórnsýslunnar vegna þess að við þurftum þess, peningarnir voru ekki til staðar, við þurftum að loka stóru fjárlagagati. Fengnir voru utanaðkomandi aðilar til að styðja okkur í þeirri vinnu svo að niðurstaðan yrði fagleg, þ.e. hvar samlegðaráhrifin væru mest, hvar samstarf milli stofnana væri mest, til að við gætum greint það hvaða stofnanir væri best að sameina. Það kom í ljós að hugmyndir sem ég hafði fyrir fram, um það hvaða stofnanir væri hugsanlega gott að sameina, voru ekkert réttar, þegar fagaðilar höfðu farið í gegnum málin. Við erum breysk þó að það sé kannski erfitt fyrir marga að viðurkenna það, við einstaklingarnir, og þess vegna skiptir það svo miklu máli að faglegar ákvarðanir liggi að baki og greining á því hvað sé best fyrir stofnunina til að hún geti sinnt skjólstæðingum sínum.