144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:57]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að lykilspurningin sé líka þessi: Er ástæða til þess að flytja stofnunina? Ég geri ekki lítið úr því sjónarmiði. Mér finnst það alveg geta átt við í mörgum tilfellum. Ég get alveg sagt fyrir sjálfan mig að ef ég væri starfsmaður Fiskistofu þá væri ég líklega bara himinlifandi yfir því að fara með slíkri stofnun til Akureyrar, fyrir mig prívat og persónulega, vegna þess að það bæjarfélag er í miklu uppáhaldi hjá mér, mér líður mjög vel þar. Það er ekki efni þessa máls og hefur í raun enga þýðingu í þessu samhengi. Spurningin hlýtur að vera: Er það gott fyrir almenning í landinu? Þjónar stofnunin betur hlutverki sínu?

Ég get ekki látið hjá líða að taka sérstaklega til umræðu stöðu Fiskistofu í þessu samhengi þegar menn velta því fyrir sér að á sama tíma og stjórnvöld hafa í hyggju að gera miklar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða ætla þeir líka að flytja þessa stofnun og setja hana í mikið uppnám og eru langt frá því búnir að tryggja að eðlileg starfsemi geti átt sér stað.

Á dögunum birtist grein um þennan fyrirhugaða flutning eftir tvo fyrrverandi fiskistofustjóra. Þeir taka fram að sú ákvörðun, sem ráðherra hefur kynnt í þessum efnum, hefur þegar valdið verulegu tjóni. Vinnustaðurinn er ekki sá sami og hann var áður. Þar ríkir nú, eftir því sem segir í greininni, reiðiblandinn kvíði starfsfólks vegna óvissu um framtíðina, vinnuöryggi og lífsnauðsynlegar tekjur. Sumir eru farnir að leita sér að annarri vinnu og jafnvel þegar farnir í annað starf. Það verður að taka það fram að sá eini sem hefur sagst ætla að flytja með stofnuninni er fiskistofustjóri sjálfur.

Það er því greinilega ekki verið að vanda til verka. Það er ekki mikil bragarbót að koma með frumvarp inn í þingið sem gerir að verkum að ráðherra getur með einu pennastriki gert þetta upp á eigin spýtur.