144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:59]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er stofnun sett í uppnám þegar svona yfirlýsing kemur. Það er eðlilegt að fólk verði óöruggt í starfi sínu og það hefur áhrif á starfsemina. Það fagfólk sem þarna starfar hefur safnað að sér alveg gríðarlegri þekkingu. Þekkingin og reynslan innan stofnunarinnar er ekki í nafninu, hún er ekki bara á blöðunum, hún er ekki bara í skýrslunum, hún er ekki bara á pappír, hún býr í þessu fólki sjálfu. Þetta getur því orðið gríðarlega dýrkeypt ákvörðun fyrir okkur faglega séð og líka fjárhagslega. Það kostar að byggja þessa þekkingu upp aftur. Þess vegna er þetta að öllu leyti fullkomlega galin aðferðafræði þó að ég ætli ekki að segja það fyrir fram. Maður hefur nú lært það á öllum sínum 40 árum að maður á aldrei að ákveða fyrir fram að eitthvað eitt sé vont, en maður getur haft á því skoðanir hvernig hlutirnir eru gerðir. Ég hef það í þessu tilfelli.

Ég hef engar forsendur til að meta það hvar best er að staðsetja Fiskistofu út frá faglegum sjónarmiðum en ég hef mikla skoðun á því þegar menn ætla að vinna hlutina á þann veg sem hér hefur verið kynnt. Það er algjörlega út úr korti að ætla að gera þetta svona.

Virðulegi forseti. Við þurfum að efla landsbyggðina. Ég er algjörlega sammála því. Við þurfum að gera það. En það er ekki leiðin að rífa eina stofnun upp með rótum og færa hana norður í land. Það er ekki leiðin.

Virðulegi forseti. Ég tók dæmi af því hér áðan, þegar hæstv. forsætisráðherra virti að vettugi margra missira vinnu við að taka ákvörðun um það hvar lögreglustjórinn á Höfn í Hornafirði skyldi vera staðsettur og fór gegn því inni á skrifstofunni sinni á bak við luktar dyr. Það skiptir máli að við séum með (Forseti hringir.) kerfi sem byggir ekki á því að einn maður (Forseti hringir.) geti tekið ákvörðun um jafnstóra hluti (Forseti hringir.) og að það sé (Forseti hringir.) enginn öryggisventill (Forseti hringir.) hvað þessa ákvörðun varðar, til þess (Forseti hringir.) að snúa henni við (Forseti hringir.) jafnvel …