144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg í 1. umr.

Það sem maður rekur fyrst augun í og margir hafa talað um í dag er 1. gr., sem er umdeild, um að ráðherra kveði á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum. Þá er auðvitað ekki óeðlilegt að fólk ræði um Fiskistofumálið mikla. Ég er mikill talsmaður þess að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni eða í raun að auka fjölbreytni starfa á landsbyggðinni, m.a. með opinberum störfum, en það var alveg ömurlegt hvað var illa að þessu staðið. Eiginlega veit ég ekki hvort okkur fyrir norðan hafi verið nokkur greiði gerður með því hvernig þetta fór fram. Þegar átti svo að fara að borga fólki fyrir að flytja til Akureyrar var mér alveg nóg boðið, því það eru forréttindi að fá að búa á Akureyri. Ef auglýst eru góð störf og það er gert á réttum forsendum þá sækir fólk um. Það vantar ekkert upp á það.

Mér finnst líka miður að ekki var tekið tillit til athugasemda sem komu fram 2004 í lítilli skýrslu um flutning Fiskistofu til Akureyrar sem Eyþing lét gera, stutt en gott plagg. Þar er talað um flutning Fiskistofu, rök fyrir því af hverju stofnunin ætti vel heima úti á landi og talað er um að flutningurinn ætti að taka fimm ár. Ég mundi segja að það væri of stuttur tími, liggur við, ef út í það er farið, vegna þess að það er mjög gott að gefa sér tíma í svona flutning. Það hefur komið í ljós í samræðum mínum við aðra þingmenn og marga aðra og mér hefur fundist sérstakt í samræðum mínum við þingmenn þegar þeir segja að það gangi aldrei að ákveða svona þvert yfir kjörtímabil, þegar ég spyr af hverju þetta sé ekki hluti af einhverju plani, tíu ára eða tuttugu ára mynd. Hvaða stofnanir sjáum við fyrir okkur að eigi heima úti á landi? Hvaða stofnanir eiga heima í Reykjavík? Hvar ættu útibúin að vera úti á landi? Er hægt að hafa höfuðstöðvarnar í Reykjavík og svo öflug útibú úti á landi? Ég held að það sé þverpólitísk sátt um að dreifa störfum, en á sama tíma þurfa þau að þjóna almenningi sem best. Ef við treystum okkur ekki í stjórnmálunum til að taka ákvarðanir til tíu ára af því að við treystum ekki hvert öðru, finnst mér liggur við sjálfhætt. Þá erum við í rauninni að segja að við getum aldrei gert nein plön sem ná yfir á annað kjörtímabil. Við þurfum alltaf að drífa í öllu, rífa Fiskistofu upp núna svo það verði örugglega búið að flytja hana áður en kjörtímabilið er á enda. Næstu stjórnvöld gætu ákveðið að flytja stofnunina til baka. Þess vegna er svo mikilvægt að við vinnum þetta í sátt. Þetta er málaflokkur þar sem ég held að allir flokkar geti náð saman.

Ég upplifði þetta eins og menn hefðu þurft að koma með eitthvað á fundinn, ég man ekki hvort þetta var ársfundur atvinnuþróunarfélagsins, þar mæti ráðherra með eitthvað í poka sínum. Það er eins og ráðherrar þurfi alltaf að mæta með einhvern pakka þegar þeir troða upp. Það er ekki gott. Hann tilkynnti þetta áður en búið var að tala við starfsfólkið. Ég er því ekki ánægð með 1. gr., ég held við þurfum að finna einhverjar aðrar leiðir.

Það er líka annað sem ég vil benda á í þessu samhengi. Á sama tíma og við erum í svona groddalegum aðgerðum sem miða að því að rífa stofnun upp og missum jafnvel marga starfsmenn þá tapast störf á landsbyggðinni. Ef við tökum bara Akureyri sem dæmi þá er Matís ekki lengur á Borgum. Það er mjög lítið eftir af Hafrannsóknastofnun, ef eitthvað. Ég var að lesa það í fréttunum í dag að þrjú sérhæfð störf sem unnin hafa verið við flugvöllinn á Akureyri hefðu verið færð suður. Umboðsmaður skuldara lokaði á Akureyri þegar verið var að draga saman. Svona gæti ég lengi talið. Markmiðið ætti kannski fyrst og fremst að vera að styrkja frekar það sem fyrir er. Mér finnst áherslan ekki vera á því.

Mér finnst mjög til eftirbreytni fyrirkomulagið sem ég hef heyrt að er hjá Umhverfisstofnun, þá sækir fólk um og getur í raun unnið á þeirri starfsstöð sem það kýs. Það finnst mér vera mjög til eftirbreytni og þess vegna ítreka ég að þessi mál ættu að vera hluti af heildarsýn og stefnu til framtíðar.

Margar stofnanir eru bara staðsettar á höfuðborgarsvæðinu og þeir sem búa úti á landi verða að eiga öll sín samskipti við þær í gegnum síma og tölvu, en það gæti verið hugmynd að í þéttbýliskjörnum væru einhvers konar opinber útibú, fólk úti á landi gæti labbað inn í útibú þar sem hægt væri að tala við starfsfólk sem væri fulltrúar fyrir hinar fjölmörgu stofnanir á höfuðborgarsvæðinu sem eru ekki með neinar stöður úti á landi. Ef ég þyrfti að eiga í einhverjum samskiptum við opinbera stofnun sem er bara staðsett á höfuðborgarsvæðinu gæti ég farið á Akureyri á einhvern ákveðinn stað og þar væri starfsfólk sem ég gæti talað við. Mér skilst að það sé eitthvað svona í gangi úti í Danmörku. Mér finnst þetta spennandi og væri til í að kynna mér þetta nánar. En hvað um það. Það verður fróðlegt að sjá umsagnir um frumvarpið, en ég tel að 1. gr. þurfi að skoða mun betur.

Í 7. gr. er talað um flutning verkefna á milli ráðuneyta. Þá verður manni auðvitað hugsað til þess að flutt voru verkefni milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og forsætisráðuneytisins þegar ný stjórn tók við. Þá voru þjóðmenningarmál færð undir forsætisráðuneytið. Ég veit ekki hvort mér finnst endilega eðlilegt að sé mikið verið að hringla með málefni og málaflokka. Þetta er samt gert. Kannski þarf hver stjórn að hafa einhvern sveigjanleika í því. En ég hefði samt haldið að það væri betra að við kæmumst að sameiginlegri niðurstöðu um hvað við teldum eðlilegast í þessu. Við kæmum okkur saman um hversu mörg ráðuneytin ættu að vera og hvaða málaflokkar ættu að heyra undir hvert ráðuneyti, það væri ekki þessi hringlandaháttur. Í því tilfelli sem ég nefndi var þetta gert á miðju ári og það fer allt inn í fjáraukalögin þegar ákveðnar stofnanir eru færðar undir forsætisráðuneytið. Mér finnst þetta bara ruglingslegt og ekki til að auka á gagnsæi eða bæta úr.

Mér finnst líka óþægilegt að áhugasvið ráðherra geta farið að ráða því hvar málaflokkar lenda. Við í stjórnmálunum ættum að geta verið sammála um og til lengri tíma hvað okkur finnst eðlilegt að ráðuneytin séu mörg og hvaða málaflokkar heyri undir hvert ráðuneyti. Mér finnst þessi hringlandaháttur ekki til bóta.

Í b-lið 10. gr. er lagt til að heimilt sé að færa starfsmenn á milli stjórnvalda ef þeir samþykkja það og viðkomandi forstöðumaður innan Stjórnarráðsins eða milli verkefna. Ég hef alltaf séð fyrir mér að það gæti verið einmitt framfaraskref að Stjórnarráðið væri meira eins og ein heild, þótt það verði alltaf skipt í ráðuneyti, það sé meira flæði á milli. Ég held að þetta sé til bóta og ég vil líka taka fram að margt í frumvarpinu sýnist mér við fyrstu sýn alveg ágætt, svo ég sé ekki allt of neikvæð.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég mun kynna mér umsagnirnar og fjalla kannski betur um málið við 2. umr.