144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst það áhugavert sem hún nefndi varðandi flutning Fiskistofu norður, að á sama tíma og menn taka ákvörðun á jafn flausturslegan hátt og hér er gert, að taka stofnunina og flytja hana norður með þeirri áhættu sem því fylgir á að þekkingin og reynslan glatist, sé dregið úr starfsemi hins opinbera að öðru leyti í öðrum stofnunum á sama stað, á Akureyri. Er hv. þingmaður með einhverjar tölur um þetta? Getur hún sagt okkur eitthvað meira um það? Það verður auðvitað að vera einhver heildarhugsun í þessu.

Þegar menn taka ákvarðanir um að auka starfsemi hins opinbera úti á landi þarf að vera áætlun um hvernig á að gera það. Það gengur ekki að segja: Við ætlum að gera þetta með því að flytja eina stofnun, skutla henni norður, en án samhengis við allt annað. Mér heyrist það vera dálítið þannig í þessu sambandi, að á Akureyri glatist störf hjá öðrum stofnunum en um ræðir. Mig langar að biðja hv. þingmann um að fara yfir það.

Það er dálítið gaman að því að stundum heyrir maður útfærslur hugmynda sem manni hafa fundist sniðugar annars staðar, í öðru samhengi, og það er þetta með að úti um allt land sé hægt að leita til eins aðila sem er nokkurs konar umboðsmaður hins opinbera í sveitarfélögunum, þar sem þú getur gert það helsta sem þú þarft að gera, svona „one-stop shop“, ef svo má að orði komast. Þetta er held ég hugmynd sem ég má vinna miklu meira með, frekar en að vera að taka ákvarðanir af þessu tagi í einhverju tómarúmi.