144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt. Ég er þeirrar skoðunar að þær breytingar sem þá voru gerðar hafi verið til bóta. Hér var talað í marga klukkutíma vegna þeirra og þótti mönnum þær hið mesta óráð. Þær breytingar sem hér eru gerðar eru samt sem áður ekki í anda þess sem menn töluðu þá enda held ég að þær breytingar hafi verið mjög skynsamlegar, þær gerðu Stjórnarráðið hreyfanlegra en það er í dag. Hægt er að breyta ráðuneytum, hægt er að kljúfa ráðuneytin og hafa tvo ráðherra eins og nú tíðkast í innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Ég held að þær breytingar hafi verið til góðs að mörgu leyti þó að ég sé alveg sammála því sem fram kom í máli hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur að ekki má umgangast Stjórnarráðið þannig að málaflokkar séu beinlínis fluttir á milli ráðuneyta af því að ráðherra hefur einhvern sérstakan áhuga á ákveðnu máli umfram önnur. Ekki ætla ég að gera lítið úr áhuga hæstv. forsætisráðherra á þjóðmenningu í landinu, en það er einmitt svolítið í anda þess sem fram kemur í mörgum störfum hæstv. ríkisstjórnar, því miður, að menn umgangast þær formreglur þannig og það sem við höfum sett okkur hér til þess að fólkið í landinu viti hvernig málum er háttað og hvernig á að stjórna. Það má ekki fara eftir hugdettum manna. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn því miður ekki alveg virða þær reglur sem ég held að séu nauðsynlegar þó að ég sé jafnframt þeirrar skoðunar að við megum ekki rígbinda alla hluti. Þess vegna fannst mér sú breyting vera til bóta sem gerð var á stjórnarráðslögunum á síðasta kjörtímabili.

Mig langar hins vegar að ræða 1. gr., þ.e. að ráðherra kveði á um aðsetur ríkisstofnana, að það sé ráðherrans eins að ákveða það. Þetta ákvæði var í stjórnarráðslögunum en var tekið út með breytingunum 2011. Í greinargerðinni segir að af því að ekki hafi verið getið sérstaklega um það í athugasemdum að ákvæðið hafi verið tekið út, að það hafi ekki verið eitthvert meiri háttar mál og að það hafi gerst óvart, sé réttlætanlegt, sjálfsagt og eðlilegt að setja ákvæðið aftur inn í lög um Stjórnarráðið. Það held ég að sé alrangt. Við verðum að athuga að breytingin á Stjórnarráðinu á síðasta kjörtímabili var gerð í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og viðbragða við henni. Í þeirri skýrslu og einnig í skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar er einmitt mikið fjallað um að ráðherraræðið hefði verið of mikið og menn hefðu tekið ákvarðanir og að ekki væri hægt að rekja eftir hvaða formreglum þær voru teknar. Ég held að það hafi einmitt verið mjög meðvitað að fella út þetta ákvæði úr gömlu stjórnarráðslögunum þannig að mönnum hafi ekki einu sinni dottið í hug að minnast á það. Ég tel að það hafi verið þannig. Þess vegna finnst mér mjög skrýtin þessi röksemdafærsla í greinargerðinni. Ég held að hún sé alröng.

Fyrst ég er á þessum stað vil ég líka segja um þetta frumvarp og það sem því fylgir, og gagnrýna þá röksemdafærslu sem kemur fram í greinargerðinni þá vil ég líka benda á bls. 3 í þingskjalinu. Í kaflanum um athugasemdir er fyrirsögn: II. Yfirlit helstu breytinga samkvæmt frumvarpinu. Síðan eru taldar upp helstu breytingarnar í fjórum númeruðum liðum og sagt í stuttu máli: „Sjá nánari umfjöllun“ og svo er tilgreint hvar. Ég ætla bara segja að þetta er mjög þægilegt og mér finnst að þeir sem láta frá sér svona frumvarp megi taka þetta sér mjög til fyrirmyndar. Við fáum oft þannig um meginefni frumvarpsins en svo kemur langur texti og ég vil bara hrósa þeim sem standa að þessu fyrir að setja þetta fram svona. Þá stendur hérna:

„Yfirlit helstu breytinga samkvæmt frumvarpinu. 1. Almenn heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana.“

Ég er búin að fjalla nokkuð um að ég tel að það hafi ekki verið nein tilviljun að þetta ákvæði var fellt út úr stjórnarráðslögunum árið 2011 en mér finnst það tillitsleysi hvernig staðið var að ákvörðuninni og því hvernig hún var kynnt. Ákvörðunin var ekki kynnt á neinum fundi og var tekin án þess að tala við starfsmenn Fiskistofu. Síðan voru menn harðir á því nokkuð lengi að flytja ætti að allt þetta fólk, mann og mús til Akureyrar án þess að spyrja nokkurn mann. Það er svo mikið tillitsleysi til starfsfólks stofnunarinnar að það er með endemum.

Nú hefur reyndar komið í ljós að hæstv. landbúnaðarráðherra/sjávarútvegsráðherra hefur, að ég held, sagt núna ekki fyrir löngu að það væri alveg ljóst að þetta mundi ekki gerast núna, enda kom í ljós að hann skorti lagaheimild. Hann hafði ekki lagaheimild til að taka þessa stofnun og flytja hana svona, enda á það ekki að vera á hendi eins manns jafnvel þótt hann sé í ríkisstjórn að ákveða annað eins, það getur ekki verið rétt. En þetta var gert á síðasta ári og menn komu með alls konar hugmyndir um að ef fólk vildi ekki fara — átti þá ekki hver starfsmaður sem flytti að fá auka 3 millj. kr. og þar fram eftir götunum? Ráðherrarnir fóru að lofa alls konar hlutum sem þeir hafa ekki heimild til að lofa. Mér finnst skorta mikið á það hjá núverandi hæstv. ráðherrum að þeir þekki valdmörk sín.

Síðan ætla ég líka að segja nokkuð í framhaldi af útúrsnúningi sem verið hefur um það að Hæstiréttur kvað einhvern tíma upp úr um það sem stendur í 2. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar, sem er svohljóðandi: „Ráðuneytið hefur aðsetur í Reykjavík“ og að þess vegna mætti segja út frá því að allar ríkisstofnanir ættu að vera í Reykjavík eða nágrenni. Það er náttúrlega útúrsnúningur. Það er alveg hægt að ákveða með lagaheimild að einhver stofnun eigi ekki að hafa aðsetur í Reykjavík, það er alveg ljóst. En hins vegar verða menn líka að hafa það í huga að Reykjavík er höfuðborg og það er ekkert einsdæmi á Íslandi að stjórnarstofnanir séu margar hverjar í höfuðborginni. Það er nú einu sinni skilgreining. Ég man eftir því að þegar ég var í skóla sem barn þá varð maður alltaf að muna varðandi Holland að Haag væri höfuðborgin þótt hún væri minni en Amsterdam. Það var vegna þess að þar var ríkisstjórnin og þar var stjórnarsetur. Það er náttúrlega munurinn á höfuðborg og öðrum borgum eða bæjum landsins, en þá er ég heldur ekki að draga úr því að það gæti verið alveg sjálfsagt að dreifa stofnunum víðar um landið til dæmis með útibúum og öðru eins og komið hefur fram í umræðum hv. þingmanna á undan mér.

Ég sé að mér mun ekki endast tími til að fara yfir allt sem ég ætlaði að fara yfir í ræðu minni, en ég vildi aðeins geta þess að mér finnst umsögn fjármálaskrifstofunnar svolítið skringileg. Þar er látið eins og engin fjárhagsleg útlát verði af þeim breytingum sem frumvarpið hefur í för með sér. Ég veit líka að það stendur ekki í frumvarpinu að flytja eigi Fiskistofu til Akureyrar en samt sem áður eru 150 millj. kr. í fjárlögunum vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar. Mér hefði fundist allt í lagi að hafa það sem neðanmálsgrein í úttekt fjármálaskrifstofunnar. En þetta var sem sagt um fyrsta atriðið, almenna heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana.

Síðan kemur annað atriðið, „Aukinn sveigjanleiki við skipulagningu ráðuneyta“. Í athugasemdum við 6. gr. finnst mér umfjöllunin svolítið merkileg í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í gær um frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um að stofna Menntastofnun þar sem færa ætti stjórnsýsluverkefni þangað. Greinin fjallar um að það gæti verið hentugt að hægt væri að skipuleggja ráðuneyti þannig að þar væri einhver sérstök deild, eða eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með auknum sveigjanleika samkvæmt framansögðu við skipulag ráðuneyta er m.a. hafður í huga sá möguleiki að sameina megi rekstur ráðuneyta …“

Og síðan er sagt að hægt sé að færa einhver stjórnsýsluverkefni sérstaklega í einhverja deild í ráðuneytunum. En þarf ríkisstjórnin ekki að hugsa í heild hvað hún ætlar að gera í þessu? Þetta fjallar akkúrat um það sem menntamálaráðherra boðaði í sérstöku frumvarpi í gær um að færa stjórnsýsluverkefni inn í Menntastofnun. Mér finnst þetta alveg á skjön við það. Nú er ég ekki að segja að það geti ekki verið skynsamlegt, ég er bara að segja að við verðum að hafa eitthvert heildarplan. Við verðum að vita hvert verið er að fara. Mér finnst það skipta máli í þessu efni.

Í þriðja lagi er í þessum ágæta yfirlitskafla fjallað um aukinn hreyfanleika starfsmanna og lagt til að kveðið verði á um almenna heimild til að flytja starfsmenn sem ráðnir eru ótímabundið til starfa í ráðuneytum og stofnunum og á milli þeirra. Í sem stystu máli held ég að það sé beinlínis af hinu góða. Ég held að það eigi einmitt að gera það og gera Stjórnarráðið meira að einni heild en það er í dag, það er svolítið í turnum og lítill samgangur er á milli ráðuneyta. Ég held því að þriðja atriðið sé beinlínis af hinu góða. 1. gr. er hins vegar algerlega ómöguleg og við megum ekki láta það gerast að hún verði samþykkt vegna þess að við eigum ekki að leyfa neinni einni manneskju að taka afdrifaríka ákvörðun (Forseti hringir.) fyrir fullt af fólki.