144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gerði 1. gr. frumvarpsins ítarlega að umræðuefni og svo sem skiljanlega. Vandinn við að ræða það fyrirkomulag sem þar er lagt til er náttúrlega sá að það er í skugganum af mjög óheppilegri framgöngu hæstv. ríkisstjórnar, eða hluta hennar, hvað varðar áform um að flytja Fiskistofu til Akureyrar og er ég þá ekki að tala um það sem slíkt heldur hvernig að því öllu saman er staðið. Það varpar auðvitað skugga á umræður um það hvort þetta væri við eðlilegar aðstæður og óháð einhverjum slíkum slæmum fordæmum óeðlilegt fyrirkomulag. Ég vil spyrja hv. þingmann aðeins út í það.

Eitt er auðvitað að hafa innan laganna um Stjórnarráðið einhverjar heimildir til að hafa sveigjanleika í skipulagningu opinberrar starfsemi svo sem eins og þess að stofnun sem er með starfsemi á mörgum stöðum í landinu, að þungamiðja og/eða aðalstöðvar slíkrar starfsemi geti færst til ef vel er að því staðið. En þá vaknar spurningin hvort nýfengin reynsla sýni ekki að það verði þá að móta einhverjar reglur um hvernig með það vald sé farið og hvernig að slíku sé staðið.

Spurning mín er eiginlega sú: Mundi það breyta einhverju í huga hv. þingmanns ef menn gengju fyrst eða samhliða frá reglum um hvernig skuli standa að slíkum breytingum, þ.e. varðandi undirbúning þeirra og samráð við starfsmenn og annað í þeim dúr? Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að það sé heppilegast að lögfesta staðsetningu stofnana eða aðalstöðvar starfsemi í öllu lagasafninu í hverju einu tilviki. Það gæti verið gott að hafa sveigjanleika, en það þarf greinilega að hugsa það mjög vel áður en valdi af þessu tagi er sleppt í hendur manna, sem klúðra öllum undirbúningi slíkra mála.