144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem mér finnst vert að skoða. Eitt af því er 6. gr., um breytingu innan Stjórnarráðsins, þar er verið að tala um þessi stjórnsýsluverkefni og breytingar sem lagðar eru til; alls konar stjórnsýsluverkefni hafi verið flutt út en nú vilja menn koma á öðru apparati innan Stjórnarráðsins og innan ráðuneyta. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að þar vanti armslengd. Mér finnst svolítil tilhneiging til þess, eins og hér var sagt um ráðherraræði, að draga allt til sín. Mér finnst 6. gr. vera svolítið með þeim hætti.

Það kemur fram að jafnvel megi útbúa sérstakan stjórnsýsludómstól sem gæti verið hluti af dómstólakerfinu til að koma í veg fyrir að ráðuneytið úrskurði sjálft í sínum málum. En það sem er kannski innihaldið í þessu — ástæðan sem sögð er vera fyrir því að breyta þessu — er að skýrsla rannsóknarnefndar segir að styrkja þurfi ráðuneytin, styrkja mannauðinn og allt það. Þau séu vegna smæðar sinnar veik og illa í stakk búin til að takast á við erfiðari verkefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Nú hefur ráðuneytum verið skipt upp og þau minnkuð, meðal annars er aftur orðinn sérstakur iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem búið var að sameina innan atvinnuvegaráðuneytis. Er þingmaðurinn sammála mér í því að þetta fari ekki saman, (Forseti hringir.) þ.e. að hér sé lagt til að styrkja þurfi ráðuneytin vegna smæðar þeirra (Forseti hringir.) en svo eru þau smækkuð aftur, meðal annars með því að skipta upp bæði velferðarráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu.