144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:53]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni áðan að ég held að 6. gr. sé stórmál og þess vegna megi ekki alveg skauta fram hjá henni. Við vitum að til eru orðnar margar stjórnsýslustofnanir og úrskurðarnefndir sem eiga að kveða á um hlutina. Umboðsmaður hefur vakið sérstaka athygli á því í skýrslum sínum undanfarið, þegar hann hefur komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að hann hafi ákveðnar áhyggjur af því hve komið er mikið af sjálfstæðum stjórnsýslustofnunum og sérstökum úrskurðarnefndum og segir að við séum svo fámenn að það sé jafnvel erfitt að fá fólk með sérfræðiþekkingu til að sitja í þessum úrskurðarnefndum.

Ég hef ekki alveg myndað mér skoðun á því hvort hann hafi rétt fyrir sér. Hann hefur svo sem ekki sagt það en hann hefur vakið athygli á þessari þróun. Ég vil setja þetta í samband við — af því að við vorum að tala um það í gær — þessa nýju Menntastofnun. Hún á ekki að vera sjálfstæð stofnun. Hún á að heyra undir ráðuneytið en auðvitað verður einhver sérfræðiþekking flutt út úr ráðuneytinu. Mér finnst vanta heildarstefnu í því hvert menn eru að fara með þetta. Þetta er svo sem ekki eina málið þar sem menn stíga einhvern veginn sitt á hvað og maður áttar sig ekki alveg á hvert þeir eru að fara. Ég hef áhyggjur af þessu.