144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ástandið í Nígeríu .

[15:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að nota tækifærið hér í fyrirspurnatíma til að setja utanríkispólitískt mál stuttlega á dagskrá, fá viðbrögð hæstv. utanríkisráðherra við því og skyggnast aðeins í það sem er að gerast varðandi eitt tiltekið mál í utanríkisþjónustunni. Mig langar sem sagt að ræða Boko Haram og þau ömurlegu tíðindi sem berast frá Nígeríu hvað eftir annað, tíðindi af yfirgripsmiklum mannréttindabrotum sem þar eiga sér stað. Þar er verið að ræna stúlkubörnum og grípa til alls konar aðgerða sem við höfum ekki séð áður. Þarna virðist vera skelfilegt ástand.

Nú spyr ég utanríkisráðherra hvað utanríkisþjónustan og ríkisstjórnin eru að gera á alþjóðavettvangi til að beita sér fyrir einhvers konar úrlausn mála í Nígeríu. Ég spyr ekki síst vegna þess að íslensk utanríkisþjónusta og íslensk yfirvöld hafa í gegnum tíðina getað beitt sér í svona málum. Ég tek Palestínu og Ísrael sem dæmi þar sem við höfum getað stigið inn sem lítil þjóð með okkar málflutningi, okkar áherslu á alþjóðasáttmála og þar fram eftir götunum. Eins hefur utanríkisráðherra og utanríkisþjónustan beitt sér í því sem er að gerast í Úkraínu og mig langar að spyrja í ljósi þessa hvað við erum að gera á alþjóðavettvangi til að vekja máls á ástandinu í Nígeríu, hvort við erum að hvetja til einhverra aðgerða gegn Boko Haram og þar fram eftir götunum.