144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ástandið í Nígeríu .

[15:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni, þær fréttir sem við erum að fá og þær staðreyndir sem blasa við okkur um ástandið í Nígeríu og framferði Boko Haram eru skelfilegar. Hv. þingmaður nefndi hér Palestínu og Ísrael. Ég vil nú ekki líkja þessu við það, ég vil frekar líkja þessu við ástandið sem við horfum á hjá ISIS-glæpamönnunum sem drepa og myrða fólk í stórum hópum í Miðausturlöndum, í Írak, Sýrlandi og víðar. Ástandið í Nígeríu hefur því miður ekki fengið jafn mikla athygli og þær hörmungar sem ég minntist á hér í Sýrlandi og Írak, en engu að síður er um mjög alvarlega hluti að ræða í Nígeríu.

Við höfum rætt þessi mál og tekið undir á alþjóðavettvangi, hvort sem er hjá Sameinuðu þjóðunum eða annars staðar þar sem verið er að ræða þetta. Ég ætla ekki að fullyrða, hv. þingmaður, að við höfum tekið málið upp að fyrra bragði á fundum, hvort sem það er hjá Sameinuðu þjóðunum eða annars staðar, en ég hef hins vegar tekið málið upp á fundum með ráðamönnum frá Nígeríu, átti fundi með þremur ráðherrum þaðan ekki alls fyrir löngu, síðasta haust, þar sem málið var rætt og ljóst að stjórnvöld eiga í miklum erfiðleikum með að taka á eða bregðast við þessum skæruliðum eða þessum hryðjuverkamönnum sem Boko Haram eru vegna þess hvernig landið liggur, hversu stórt það er, dreifbýlt o.s.frv.

Ég mundi gjarnan vilja segja að Íslendingar gætu lagt þessu máli sérstaklega lið. Við getum það, eins og annars staðar, hugsanlega með mannúðaraðstoð og einhverju slíku. Það hefur þó ekki gerst mikið fram að þessu. Alþjóðasamfélagið held ég að þurfi að veita nígerískum stjórnvöldum stuðning með þeim hætti sem frekast er unnt. Margir hafa lýst því yfir að það beri að gera. Ég held að Bandaríkjamenn hafi reyndar stutt þá eitthvað, en þarna eru skæruliðar, þarna eru hryðjuverkamenn sem fara í þorp frá þorpi, ræna og myrða börn, konur og gamalmenni (Forseti hringir.) og alla sem fyrir þeim verða. Þetta er vitanlega skelfilegt.