144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

siðareglur í stjórnsýslunni.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka ágæta fyrirspurn. Ég vil þó taka fram í upphafi að ég er ekki alveg sammála túlkun hv. þingmanns á athugasemdum umboðsmanns og raunar ekki heldur á svari forsætisráðuneytis til umboðsmanns á sínum tíma, sem kallað var hvumpið, það var alls ekki svo. En fyrst hv. þingmaður rifjar það upp þá er rétt að nota tækifærið til að minna á að þar kallar umboðsmaður eftir siðareglum fyrir eigið embætti og aðrar stofnanir og minnir á að það sé Alþingis að setja slíkar siðareglur.

Hvað varðar fyrirspurnina um viðbrögð þá er þegar hafin allumfangsmikil skoðun á þessum athugasemdum í ráðuneytinu með það að markmiði að bregðast við þeim og ráðast í nauðsynlegar úrbætur. Hvað varðar siðareglurnar sérstaklega þá lítur umboðsmaður svo á, að því er virðist, að hver ríkisstjórn þurfi að setja sér eigin siðareglur, en það má lesa úr áliti umboðsmanns að einungis sé heimild fyrir ríkisstjórnina að setja sér siðareglur en ekki nauðsyn. Það er þá eitt af því sem rétt er að skoða í framhaldinu, hvort skerpa þurfi á og skerpa eigi á skyldu ríkisstjórna til að setja sér siðareglur.

Jafnframt er rétt að minna á að í nýju frumvarpi um Stjórnarráð Íslands, sem er til umræðu hér í þinginu og verður áfram til umræðu á morgun, er sérstaklega fjallað um siðareglur með það að markmiði að skerpa á mikilvægi þeirra og jafnframt hlutverki forsætisráðuneytisins við að gæta þess að aðrar stofnanir, sem undir það heyra, setji sér siðareglur. Fyrirspurnin er því ágæt og gott að geta svarað henni á þann hátt að við þessu öllu verður brugðist og sú vinna er í fullum gangi.