144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

siðareglur í stjórnsýslunni.

[15:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við höfum kannski mismunandi smekk fyrir því hvað er að vera hvumpinn. Ég kalla það að vera hvumpinn ef hæstv. forsætisráðherra fær fyrirspurn frá umboðsmanni og svar hans endar svona: Hefur umboðsmaður sjálfur sett sér siðareglur? Ef það er ekki að vera hvumpinn þá veit ég ekki hvað það orð þýðir.

Það má líka fara í orðaleik um að það sé heimild en ekki skylda í lögunum. Við skulum þá endilega breyta því. En það má þá líka spyrja hvort hæstv. forsætisráðherra ætlar að notfæra sér þessa heimild sem hann hefur. Ég hef fengið svar við því, hann ætlar að gera það fyrst núna þegar hann er búinn að sitja í bráðum tvö ár.

Mig langar líka að spyrja, fyrst hæstv. forsætisráðherra segir að þetta sé allt komið til skoðunar, hvort hann hafi myndað sér skoðun á því sem umboðsmaður veltir fyrir sér, hvort, í ljósi þeirra atburða sem hafa orðið, aðstoðarmenn ráðherra séu, ég held að umboðsmaður orði það þannig, (Forseti hringir.) að verða einhvers konar „spin doctors“, (Forseti hringir.) hvort það sé að verða hlutverk þeirra. Telur forsætisráðherra að það þurfi (Forseti hringir.) eitthvað að endurskoða lögin um aðstoðarmenn ráðherra?