144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

siðareglur í stjórnsýslunni.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef alls ekkert á móti því að menn velti því fyrir sér hvernig fjallað er um aðstoðarmenn ráðherra og sjálfsagt að taka þá umræðu í tengslum við breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Ég held reyndar að það sé ekki rétt mat hjá hv. þingmanni að aðstoðarmenn ráðherra vinni fyrst og fremst sem einhvers konar spunamenn. Það kann að vera að hv. þingmaður hafi vanist því í tíð síðustu ríkisstjórnar (Gripið fram í.) en ég hef ekki orðið var við að við leggjum sérstaka áherslu á það í núverandi ríkisstjórn.

Hins vegar eru ýmsir þingmenn þekktir að engu öðru en spuna eins og sessunautur hv. þingmanns, Össur Skarphéðinsson, sem gólar hér fram í: Þú ert með sjö, þú ert með sjö. (Gripið fram í.) Heldur því fram að ég sé með sjö aðstoðarmenn, sem hv. þingmaður veit að er alrangt. Ég er með tvo aðstoðarmenn og það er aðeins einn á launum. Þetta er mikil hagkvæmni, virðulegur forseti, en hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem einbeitir sér eingöngu að spuna í sinni pólitík, (Gripið fram í.) endurtekur hér tóma vitleysu þó að hann viti betur.