144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

álit umboðsmanns Alþingis um rannsókn lekamálsins.

[15:16]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Mér og eflaust fleirum leikur forvitni á að vita hver viðbrögð hæstv. forsætisráðherra verða við áliti umboðsmanns Alþingis frá 22. janúar síðastliðinn í lekamálinu. Umboðsmaður hefur komist að því að fyrrverandi innanríkisráðherra reyndi að hafa áhrif á rannsókn málsins með óeðlilegum hætti og sagði ósatt hér í þinginu og víðar. Í kjölfarið hafa vaknað ýmsar spurningar svo að ekki sé kveðið fastar að orði.

Hver er skoðun hæstv. forsætisráðherra á áliti umboðsmanns? Ætlar hann að bregðast við niðurstöðum umboðsmannsins með einhverjum hætti? Hefur forsætisráðherra í hyggju að bregðast við þeim ábendingum sem beint er sérstaklega til forsætisráðherra?

Hv. þingmaður talaði hér um siðareglur. Hvað um rannsóknir á störfum ráðherra? Mun forsætisráðherra leggja til að starfsreglur um rannsóknir á störfum ráðherra verði skýrari? Telur forsætisráðherra að halda þurfi betur utan um skráningu formlegra samskipta og funda ráðherra og að skýra þurfi betur stöðu aðstoðarmanna ráðherra? Hefur forsætisráðherra í hyggju að setja á fót starfshóp til að fara yfir niðurstöðu umboðsmanns Alþingis?