144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

álit umboðsmanns Alþingis um rannsókn lekamálsins.

[15:18]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Að miklu leyti var um að ræða sömu spurningar og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir bar fram hér áðan svo að ég verð að svara því á sama hátt. Það stendur yfir vinna í forsætisráðuneytinu við að fara í gegnum ábendingar umboðsmanns og við þeim öllum verður brugðist eins og tilefni er til. Sérstaklega bendi ég á að þetta mun nýtast í þá vinnu sem nú stendur yfir við breytingar á lögum um Stjórnarráðið.

Skemmst er frá því að segja að ekki eru einungis skoðaðar sérstaklega þær athugasemdir sem lúta beint að forsætisráðuneytinu, heldur er af hálfu ráðuneytisins farið yfir álitið allt til að meta hvað megi læra af því eða hvernig það geti gagnast í þeirri vinnu sem fram undan er við breytingar á lögum um Stjórnarráðið. Ég veit að sams konar vinna hefur farið fram eða fer fram í innanríkisráðuneytinu.

Ég á ekki von á að tilefni sé til þess að stofna sérstakan starfshóp til að fara í þessa vinnu enda eru starfsmenn ráðuneytisins fullfærir um að vinna úr athugasemdum umboðsmanns og munu eflaust skoða hluti eins og þau atriði sem hv. þingmaður spurði sérstaklega um, stöðu aðstoðarmanna, stöðu upplýsingafulltrúa, hverjir eigi að vera pólitískt ráðnir og hverjir ekki og í hverju hlutverk þeirra felist.