144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

úrbætur í húsnæðismálum.

[15:23]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir þessa fyrirspurn. Við deilum svo sannarlega áhuga á húsnæðismálunum og ég tek undir áhyggjur hans af því hvernig staðan er. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga þá var frost, má segja, ekki hvað síst hér á suðausturhorninu, í byggingu á nýju húsnæði og við sjáum að mjög stórir hópar af ungu fólki eru að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Við sjáum líka, ekki hvað síst í hverfunum hér í kringum okkur, í miðbæ Reykjavíkur, að húsnæði hefur verði keypt undir ferðaþjónustu, undir hótel og gistiheimili sem hefur gert það að verkum að ungt fólk sem er til dæmis í námi hefur ekki haft möguleika á því að afla sér húsnæðis hérna.

Ég hef lagt megináherslu á einmitt þetta frá því að ég kom hingað inn í ráðuneytið. Ég geri ráð fyrir því, eins og hv. þingmaður var að spyrja hér, varðandi þau frumvörp sem eru fram undan, að lagaheimild til að veita stofnstyrki og/eða vaxtaniðurgreiðslur, því að ekki var fyllilega sátt um þá tillögu í verkefnisstjórninni um framtíðarskipan húsnæðismála, komi hér fram í þinginu fljótlega.

Við höfum unnið hörðum höndum að því að búa til heildarlöggjöf varðandi húsnæðisbæturnar þannig að húsaleigubætur munu flytjast frá sveitarfélögunum til ríkisins og að jafna stuðninginn við þá sem eru á leigumarkaði við þann stuðning sem fólk hefur verið að fá sem á eigin húsnæði.

Það er hins vegar líka mikilvægt að benda á að hluti af þeim tillögum sem sneru að ungu fólki, sem er að huga að húsnæðiskaupum, er ekki á borði félags- og húsnæðismálaráðherra. Það eru skattkerfisbreytingar sem voru líka hluti af tillögunum sem liggja fyrir og það er á borði fjármálaráðherra. Síðan höfum við verið að skipa óformlega starfshópa til að ná utan um það hver þörfin er fyrir félagslegt húsnæði hjá sveitarfélögunum þannig að við getum byrjað á því að afla okkur upplýsinga um það hver hin raunverulega þörf er.