144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

úrbætur í húsnæðismálum.

[15:26]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Herra forseti. Ég þakka fyrir hvatninguna. Ég held að þetta sé eitt af því sem ég get tekið undir að sé mikilvægt fyrir innanríkisráðuneytið að skoða sem snýr að sveitarstjórnarlögunum og þeim reglum sem snúa að skuldsetningu sveitarfélaga. Það sem hefur hins vegar verið bagalegt að vinna með er að það liggja ekki fyrir neinar áætlanir sveitarfélaganna um það hver þörfin eftir félagslegu húsnæði er.

Reykjavíkurborg steig kannski fyrst sveitarfélaga það skref að samþykkja uppbyggingu á 100 félagslegum íbúðum á ári næstu fimm árin. Það snýr að fólki sem er í félagslegum eða fjárhagslegum vanda. Við eigum enn þá eftir að fá upplýsingar um húsnæði fyrir fatlað fólk. Við eigum líka eftir að fá upplýsingar um þjónustuíbúðir fyrir aldraða og síðan er mikilvægt að skoða hver uppbyggingarþörfin er varðandi námsmenn. Þetta er nákvæmlega það sem við erum að reyna að ná utan um með sveitarfélögunum.

Það sama gildir varðandi breytingarnar á húsaleigubótunum. (Forseti hringir.) Ég tek undir að það er mjög mikilvægt. Ég fagna því líka að aðilar vinnumarkaðarins hafa verið að tjá sig (Forseti hringir.) mjög skýrt um mikilvægi húsnæðismála nú í aðdraganda kjarasamninga.