144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lesa 3. gr. vopnalaga nr. 16/1998, en hún er svohljóðandi:

„Lög þessi gilda ekki um vopn, tæki og efni skv. 1. og 2. gr. sem eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.“

Í stuttu máli þýðir þetta að vopnalög gilda ekki um lögreglu. Lögreglan vinnur eftir leynilegum reglum sem ráðherra setur. Það hefur átt sér stað heilmikil og mikilvæg umræða um hvort heimild sé til þess að halda þeim reglum leyndum, en hvernig sem því líður er tilfellið núna að þær eru leynilegar. Þær eru svo leynilegar að ekki einu sinni þingmenn hafa aðgang að þeim. Sjálfur hef ég einu sinni barið þær augum og var það á fundi allsherjar- og menntamálanefndar og þurfti ég að kvitta bæði fyrir móttöku og skil á þeim sama fundi. Mér eru ákveðnir hlutir í þeim minnisstæðir, en ekkert minnisstæðara en það mat mitt að leyndin yfir þeim sé fullkominn óþarfi.

Réttilega eru valdbeitingarheimildir lögreglunnar miklar og langt umfram þær heimildir sem venjulegur borgari hefur. Af þeim sökum er grundvallaratriði að þær valdbeitingarheimildir sem yfirvöld hafa umfram borgara sína séu í skjóli lýðræðislegs umboðs. Ekkert vald yfirvalda er lögmætt nema með lýðræðislegu umboði. Meðan valdbeitingarheimildir lögreglunnar eru leynilegar er þetta lýðræðislega umboð ómögulegt og því ekki til staðar. Það er fyrsta vandamálið við leynd þessara reglna, skortur á lýðræðislegu umboði.

Annað vandamál sem ekki er jafn oft nefnt er að lögreglumenn sjálfir geta ekki borið af sér sakir sé valdbeiting þeirra gerð tortryggileg. Í hinu svokallaða Hraunbæjarmáli, fyrsta máli á Íslandi þar sem lögregla skaut mann til bana, var farið eftir þessum leynilegu reglum, eða svo er okkur sagt. Þótt ég hafi enga ástæðu til að vefengja mat yfirvalda og dómara þá skortir mig líka flesta burði til að staðfesta það vegna þess að ég get ekki borið þessar reglur undir einn eða neinn, hvorki lögfræðinga né almenning.

Í október 2014 komst í fréttirnar að ríkislögreglustjóri hefði keypt eitthvað um 150–250 vélbyssur, en tölurnar voru ekki nákvæmar á þeim tíma. Umræðan í kjölfarið einkenndist nær alfarið af óljósum og misvísandi svörum frá ýmsum stöðum í stjórnsýslunni og jafnvel hér á hinu háa Alþingi. Það voru misvísandi upplýsingar um meira eða minna allt sem viðkom málinu, hvort sem það var fjöldi vopnanna, gerð þeirra, áætluð notkun, ástæður fyrir kaupum, heimildir til notkunar eða tilætlan nú, eða hvort byssurnar hefðu yfir höfuð verið keyptar eða hvort þær hefðu fengist gefins. Annan eins farsa af stjórnmálaumræðu hef ég ekki upplifað síðan í alþingiskosningunum 2013. Þessu lauk með þeirri klaufalegu niðurstöðu að hætt var upptöku byssanna vegna ágreinings milli Íslands og Noregs um hvort borga ætti fyrir þær eða ekki. Sumir fögnuðu sigri yfir þeim málalokum, en eftir standa allar veigamestu spurningarnar sem varða vopnaburð og valdbeitingarheimildir lögreglunnar. Hvaða vopn þarf lögreglan? Hversu mikið og hverra tegunda? Til hvers? Undir hvaða kringumstæðum mun hún beita þeim?

Við munum engum slíkum spurningum svara í dag. Ástæðan fyrir því er einföld; við höfum ekki forsendurnar.

Vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar eru leyndarmál og skiptir niðurstaða okkar á hinu háa Alþingi í sjálfu sér engu máli því að við vitum næstum því ekkert hvað við erum að tala um og megum ekki segja frá því litla sem við þó þekkjum. Fyrsta skrefið er því að afnema þá leynd sem hvílir yfir valdbeitingarheimildum lögreglunnar þannig að lýðræðisleg umræða um þessi mál geti hafist fyrir alvöru og þar af leiðandi lýðræðislegt umboð fengist.

Eitt gott kom út úr byssumálinu, en það var að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hyggst funda reglulega með ríkislögreglustjóra um þarfir lögreglunnar á vopnaburði og valdbeitingarheimildum. Það er jákvæð þróun en er þó langt frá því að vera nóg vegna þess að í kjölfar slíks fundar geta kjörnir fulltrúar engu frekar tjáð sig opinberlega um málið né haft nokkuð um málin að segja þar sem ákvarðanir liggja enn þá hjá framkvæmdarvaldinu sjálfu. Ég legg til að þjóðin hafi rétt til að þekkja valdmörk yfirvalda. Því legg ég til að valdbeitingarheimildir lögreglu verði gerðar opinberar.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.