144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:46]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og góðum svörum hæstv. ráðherra og vildi leggja áherslu á nokkur atriði í málinu.

Í fyrsta lagi er óumdeilt að full ástæða er til að lögregla hafi heimildir til beitingar vopnavalds og að þær séu eðlu málsins samkvæmt bundnar meðalhófi eins og hæstv. ráðherra rakti áðan. Það er líka eðlilegt að lögregluyfirvöld fari með mat á búnaðarþörf og endurnýjunarþörf á búnaði. En í því máli sem upp kom á haustmánuðum snerist umræðan að stóru leyti um það hvar vopn yrðu geymd. Ákvörðun um að auka aðgengi almennra lögreglumanna að vopnum í daglegri löggæslu er pólitísk ákvörðun og ekki ákvörðun einstakra lögregluyfirvalda. Það að taka til dæmis ákvörðun um að skotvopn séu að jafnaði geymd í lögreglubifreiðum hefur áhrif á möguleika lögreglumanna á að beita þeim og getur einnig haft áhrif á vígbúnað og viðbúnað glæpamanna. Þess vegna er mjög mikilvægt að fara að gát þegar rætt er um almennt aðgengi að vopnum. Í öllum nágrannalöndum okkur er það stór pólitísk spurning hvort og að hvaða marki eigi að vopna almenna lögreglumenn við dagleg löggæslustörf.

Að síðustu varðandi opinberun reglnanna, en ég á fyrirspurn við hæstv. ráðherra síðar í dag um það efni nákvæmlega, og rökin fyrir að halda þeim leyndum. Þó vil ég einungis leggja á þessu stigi málsins inn það sjónarmið að í ljósi þess að í öllum nágrannalöndum okkar eru slíkar reglur opinberar má færa fyrir því gild rök að það að halda þeim leyndum auki áhættu lögreglumanna í daglegum störfum og skapi óvissu hjá brotamönnum um viðbrögð (Forseti hringir.) lögreglu (Forseti hringir.) sem sé ekki (Forseti hringir.) löggæslumönnum eða löggæsluyfirvöldum (Forseti hringir.) eða þjóðinni til bóta.