144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:55]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda umræðuna. Hún er mjög þörf og gagnleg, hefði kannski mátt vera fyrr, en svona er þetta. Ég vil líka þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svör hennar. Þetta er mál sem við megum aldrei láta liggja niðri, löggæslan og ekki síst vopnaeign sem kom kannski sérstaklega upp á síðasta hausti. Það þarf engan að undra að hér hafi allt farið á hvolf eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson nefndi áðan, umræðan fór hreinlega á hvolf þegar kom fram í fréttum sem birtust að lögreglan ætti að fara að vopnbúast. Ég meira að segja sjálfur hrökk í kút vegna þess að eitt af því sem gerir mig hvað stoltastan af því að vera Íslendingur er að lögreglan á Íslandi er óvopnuð og hefur verið alla tíð.

Ég nefni bara búsáhaldabyltinguna frægu 2008 og 2009. Ég velti því fyrir mér í kringum þá umræðu sem varð um vopnaeign lögreglunnar í haust hvernig ástandið hefði verið ef lögreglan hefði verið vopnuð í þeim átökum. Hefði einhver látið lífið? Ég velti þessu oft fyrir mér. Það er gott fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvað hefði gerst ef lögreglan hefði verið vopnuð.

Sem betur fer eru óeirðir og uppþot á Íslandi afar sjaldgæf. Ef maður fer inn á Wikipediu þá eru talin upp 15, 16 atburðir af því tagi, óeirðir eða uppþot, verkfallsdeilur og annað, sem hafa orðið síðan 1905. Það besta við þetta allt saman er að enginn hefur dáið í þessu. En það er ekki sömu sögu að segja frá öðrum löndum þar sem lögreglan hefur vopn, þar deyr fólk. Tilfinningin sem maður hefur að hér sé vopnlaus lögregla er einstök.

Ég var staddur í Bandaríkjunum yfir jólin. Ég get alveg sagt ykkur að það veitti mér enga öryggistilfinningu að labba um götur Los Angeles-borgar eða fara inn í verslanir og sjá lögreglu með skammbyssu í beltinu. Enga.

Ég mun koma í aðra ræðu á eftir.