144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mikilvæga málefni upp en um leið vil ég leggja áherslu á að það skiptir miklu máli hvernig svona umræða fer fram. Hún þarf að byggja á réttum staðreyndum og mikilvægt að röngum upplýsingum sé ekki haldið á lofti. Slíkt getur haft áhrif á öryggi og öryggistilfinningu fólks og um leið torveldað lögreglu að sinna hlutverki sínu.

Samkvæmt lögreglulögum er það fyrsta sem nefnt er sem hlutverk lögreglu að lögreglan eigi að gæta almannaöryggis og halda uppi lögum og reglu, leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna, vernda eignarrétt, opinbera hagsmuni og hvers konar lögmæta starfsemi. Hið sama á við um lögregluna eins og alla aðra sem gegna öryggis- eða björgunarhlutverki að fyrst þarf viðkomandi að tryggja eigið öryggi.

Þessir tveir þættir, þ.e. öryggishlutverk lögreglu og öryggi lögreglumanna, hljóta að ráða því hvaða búnað lögreglan þarf til sinna starfa. Ríkislögreglustjóra hefur verið falið það hlutverk að meta þarfir lögreglu fyrir búnað, skipulag og þjálfun innan þeirra marka sem reglugerð um vopnareglur lögreglunnar segja til um. Ríkislögreglustjóri hefur unnið þarfagreiningu byggða á áhættumati og áhættugreiningu. Þannig hafa faglegar forsendur verið að baki hverri ákvörðun um þörf á búnaði, þjálfun og breyttu skipulagi. Þau vinnubrögð eiga væntanlega þátt í því að um og yfir 85% þjóðarinnar hafa treyst lögreglunni ár eftir ár.

Um störf lögreglu þarf að ríkja traust. Það gæti aukið traustið ef eftirlit þingsins yrði aukið með því að Alþingi yrði betur upplýst og því kynntar þarfagreiningar, áhættumat og áhættugreiningar sem lögreglan hefur gert. Þá tel ég líka mikilvægt að fyrrnefndar vopnareglur verði gerðar opinberar þannig að ferlið og heimildir lögreglu liggi skýrt fyrir.

Að lokum vil ég segja að það skiptir miklu máli hvort til umræðu sé endurnýjun eða uppfærsla á búnaði og skipulagi lögreglunnar eða grundvallarbreyting á vopnaburði. Hvorki nú né síðastliðin ár hefur nein grundvallarbreyting verið gerð á vopnaeign eða meðferð lögreglu á vopnum. Engin plön eða umræða er um að lögreglumenn gangi vopnaðir skotvopnum við dagleg störf. (Forseti hringir.) Hins vegar er ljóst að lögreglan verður að geta sinnt því hlutverki sínu að bregðast við þegar á þarf að halda og til þess þarf hún nauðsynlegan (Forseti hringir.) búnað og vopn. Það sem skiptir mestu máli er öryggi almennings (Forseti hringir.) og þeirra sem sinna því öryggishlutverki sé tryggt.