144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[16:07]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég held að nánast allir séu sammála um að lögreglan og Landhelgisgæslan á Íslandi þarf að eiga vopn. Á fundi sem við höfðum í haust með öllum aðilum málsins kom í ljós að það þarf að vera þannig. En það er bara spurning um hvernig þetta er gert og hvort þessi leyndarhyggja sé góð fyrir okkur.

Í umræðunum í haust þegar þetta var, byssumálið stóra, skrifaði Helen Ólafsdóttir mjög merkan og góðan pistil á Kjarnann en Helen starfar sem ráðgjafi hjá Sameinuðu þjóðunum, meðal annars varðandi vopna- og öryggismál. Í greininni segir hún, með leyfi forseta:

„Það fyrsta sem þarf að skoða eru reglugerðir um innflutning á vopnum. Á Íslandi eru slíkar reglugerðir en lögreglan sætir sérákvæðum og er greinilegt af spurningum þingmanna að þessar verklagsreglur eru ekki mjög kunnar, ef það þá yfirhöfuð liggja fyrir slíkar reglur. Það er hins vegar venjan á Vesturlöndum að þessi mál, sér í lagi val á skotvopnum fyrir löggæslu og her, séu yfirfarin í sérstökum þingnefndum sem gæta eftirlits með framkvæmdarvaldinu, sér í lagi þar sem um útgjöld skattgreiðenda er að ræða.“

Hún segir að það sé eðlilegt að vinna þessi mál í fagnefnd. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa niðurlag þessarar greinar:

„Það skal ekki lesast þannig að ég hafi mótað mér skoðanir um það hvers kyns vopnabúnaður sé viðeigandi í þessu tilfelli og ljóst að lögreglan þarf að búa yfir tækjum og tólum til þess að verja sig og almenna borgara gagnvart glæpamönnum eða jafnvel hryðjuverkamönnum en það eru til alþjóðlegar leiðbeiningar um hvernig þessum málum skuli best háttað í lýðræðisríkjum þar sem gagnsæi stjórnsýslunnar er hornsteinn lýðræðisins og ákvarðanatakan á að vera sem næst almennum borgurum sér í lagi þegar kemur að löggæslu.“

Áfram segir hún:

„Það er því kannski ábending til íslenskra stjórnvalda og þingmanna að kynna sér vel alþjóðlegar reglur og leiðbeiningar um þessi mál og skoða rækilega hvernig haldið er á spöðunum í nágrannaríkjunum. Þess má einnig geta að lögreglan í Bretlandi hefur það sem yfirlýst markmið að vera gagnsæ um kaup og notkun vopna innan lögreglunnar. Það er ekki talinn góður siður í lýðræðisríkjum að skotvopnaeign lögreglu og notkun þeirra sé einkamál lögreglu og ráðherra.“

Þarna liggur hundurinn grafinn og við eigum bara að opna umræðuna og gagnsæið í þessu þjóðfélagi. Þá þurfum við ekki að lenda í þessum vandræðum.