144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[16:11]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa gagnlegu umræðu. Ég vil, vegna þeirrar fyrirspurnar sem fyrir liggur í ráðuneytinu frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, upplýsa að þeirri fyrirspurn hefur verið svarað.

Í þessu máli þarf að gæta jafnvægis á milli þeirra sjónarmiða að lögreglan hafi þann öryggisviðbúnað sem hún þarf til að halda uppi og tryggja öryggi borgaranna í landinu og hins, sem hv. málshefjandi hefur nokkuð gert að umtalsefni, að meðferð reglna valdi ekki tortryggni gagnvart því sama hlutverki þeirra í mikilvægum störfum, einmitt til að tryggja öryggi borgaranna. Þar er þetta jafnvægi sem við erum að leita að í þessari umræðu. Ég vil endilega undirstrika það í því að nálgast umræðuna frá þeim sjónarhóli.

Ég vil einnig segja að það er ástæða til að ítreka að íslenskir lögreglumenn eru ekki vopnaðir skotvopnum í sínum daglegu störfum, það er ekki þannig hjá íslensku lögreglunni. Hins vegar er það svo, og það hljóta menn að sjá, að það verður að vera mat ríkislögreglustjóra og yfirmanna lögreglunnar í landinu hvernig vopnabúnaði lögreglunnar er háttað. Umræðan sem fór af stað í haust, og ég fylgdist með úr fjarlægð, fór dálítið út um víðan völl af því að menn voru að tala um svo ólíka hluti og náðu ekki saman um það hvað verið væri að tala um.

Ég held að menn hljóti að vera sammála því að til að tryggja öryggi í landinu þarf lögreglan ákveðnar heimildir og henni eru tryggðar þær. Spurningin sem eftir stendur er þessi: Liggur það almennilega fyrir eða er mönnum alveg ljóst hverjar þær heimildir eru?