144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins.

381. mál
[16:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Athugasemd hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar á mjög vel við það sem ég spyr um sem er hvert hæstv. fjármálaráðherra vill stefna í þessum málum. Það sem hér var nefnt fellur þar undir. Ég er ein af þeim sem telja að við eigum að ganga eins langt og mögulegt er og reyna að hafa sem mest og best aðgengi að upplýsingum og gögnum hins opinbera á veraldarvefnum.

Að mörgu leyti er þetta líka til mikils hagræðis fyrir stjórnsýsluna. Ég sé fyrir mér að menn geti gengið að upplýsingum eins og um hvernig verið er að ráðstafa svokölluðu skúffufé ráðherra, hverjir verktakar á vegum hins opinbera eru o.s.frv. Þannig er stjórnsýslan ekki alltaf í þeirri vinnu að taka upplýsingarnar saman fyrir fjölmiðla heldur getur hver og einn gengið að þeim vísum í gegnum netið. Til þess eigum við að nota netið og ég tel að þangað eigum við að stefna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvar hann sjái fyrir sér að við endum þessa vegferð, vegna þess að ég tel að það skipti máli að við vitum ekki aðeins hvaða skref við ætlum að taka næst heldur hvar við viljum enda. Svo vil ég hvetja hæstv. ráðherra til dáða. Þetta með ríkisreikninginn var vel gert. Það er líka vel gert sem verið er að gera í innanríkisráðuneytinu í þeirri vinnu sem þar fer fram en það á samt ekki að stoppa fjármálaráðuneytið í því að halda áfram að tilnefna ný gagnasöfn, sem geta þá farið í birtingu undir leyfinu sem þegar er til varðandi fjársýsluna og hæstv. ráðherra nefndi. Ég vil hvetja hann til dáða í því. Hann getur kannski dustað rykið af þeirri skýrslu sem ég nefndi áðan. Þar eru beinlínis lögð til nokkur gagnasöfn sem hægt væri að opna og vinna sem á sér stað í innanríkisráðuneytinu þarf ekki að tefja það. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ráðherra til að stíga næstu skref í þeim efnum snaggaralega.