144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins.

381. mál
[16:28]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi ekki verið stigið stærra skref í að greiða fyrir aðgengi almennings að upplýsingum um ríkisfjármálin en þegar við opnuðum þennan vef á síðasta ári, rikisreikningur.is. Með því að skoða þann vef og alla möguleikana sem hann býður upp á er hægt að sjá þróun frá árinu 2004 aftur í tímann niður á einstaka bókhaldslykla hjá ríkinu og þannig, eftir að menn hafa grafið sig niður á einhverja útgjaldaþróun eða einstaka útgjaldaliði á einstökum árum, fá menn eftir atvikum tækifæri til þess að spyrja enn frekar.

Væri ekki æskilegt að það væri einfaldlega hægt að skoða allar nóturnar? Jú, það væri eflaust best að við gætum haft þetta alveg galopið, en þar hefur tæknin aðeins verið að þvælast fyrir okkur. Við erum þó búin að stíga mjög stór skref í að opna þetta aðgengi. Við munum áfram í fjármálaráðuneytinu skoða möguleikana á því að taka frekari gagnapakka til skoðunar í þeim tilgangi að opna aðgengi að þeim, en í mínum huga er alveg skýrt að þeir sem borga reikninginn, almenningur í þessu landi, eiga skilyrðislausan rétt á því að fá upplýsingar um það í hvað fjármunirnir fara, á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar um einstaka útgjöld og að það sé alveg skýrt hvert fjármunirnir renna.

Sumir eru komnir miklu lengra en við í þessu í einstökum ríkjum. Til dæmis í Bandaríkjunum hafa menn líklega gengið lengst í öllum heiminum þar sem er ákveðið viðmið að allir greiddir reikningar umfram tiltekna fjárhæð eru aðgengilegir á netinu. Í Bretlandi er mikil hvatning til sveitarfélaganna að fylgja því fordæmi og hefur gengið frekar hægt miðað við vilja ríkisstjórnarinnar þar í landi. Mér finnst að við mættum gera meira á sveitarstjórnarstiginu og mér sýnist að með vefnum (Forseti hringir.) rikisreikningur.is hafi ríkið tekið ákveðið frumkvæði í þessu, en við eigum að halda þróuninni áfram og veita fólki mjög ítarlegar (Forseti hringir.) upplýsingar um ráðstöfun á skattfé.