144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ríkisframlag til Helguvíkurhafnar.

440. mál
[16:30]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra var lögð fram fyrir 2. umr. fjárlaga 2015 eftir heimsókn fulltrúa frá Reykjanesbæ til hv. fjárlaganefndar. Á þeim fundi kom fram að framkvæmdir væru hafnar á iðnaðarsvæðinu við Helguvík vegna kísilvers. Viðlegukantur við höfnina væri nauðsynlegur svo þjónusta mætti það kísilver þegar það tæki til starfa. Framlag ríkisins til þeirrar framkvæmdar þyrfti að vera um 180 millj. kr. og að þær þyrftu að hefjast á árinu 2015.

Eftir að ljóst var að stjórnarmeirihlutinn lagði ekki til fjármagn til framkvæmda við Helguvíkurhöfn við 2. umr. fjárlaga lagði stjórnarandstaðan til að það yrði gert og gaf stjórnarmeirihlutanum ráðrúm til 3. umr. fjárlaga til að koma með tillögu í svipuðum dúr ef vera skyldi að þau gætu ekki fengið sig til að samþykkja tillögu sjórnarandstöðunnar. Stjórnarmeirihlutinn með hæstv. iðnaðarráðherra í fararbroddi málsins felldi tillöguna. Segja má að þá sé spurningunni svarað um hvort af framkvæmdinni verði á árinu 2015 því að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar er með þeim hætti að ekkert verður þar gert nema með aðkomu ríkisins.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði við atkvæðaskýringar, þegar hún greiddi atkvæði á móti því að ríkið kæmi að hafnarframkvæmdum við Helguvíkurhöfn, að samþykkt hefði verið í ríkisstjórn að á komandi vorþingi yrði lagt fram frumvarp til laga um að fjármagna uppbyggingu í Helguvík en að ákveðnir efnisþættir í frumvarpinu mundu þurfa samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA. Þessi útskýring kemur eftir tæplega tveggja ára starf hæstv. ríkisstjórnar og alla þá umræðu sem fram hefur farið um málið innan og utan Alþingis á undanförnum árum. Tvisvar á síðasta kjörtímabili var samþykkt í ríkisstjórn að þegar búið væri að aflétta fyrirvörum vegna framkvæmda við Helguvík þá kæmi ríkissjóður að uppbyggingu iðnaðarsvæðisins með svipuðum hætti og gert var vegna iðnaðarsvæðisins við Bakka. Gögnin um það eru bæði í iðnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneytinu en óratíma hefur tekið núverandi ríkisstjórn að vinna að þessu máli og til að sýna vilja í verki hefði verið borðleggjandi að hefja stuðninginn með fjármagni til framkvæmda við höfnina en mörg fordæmi eru fyrir slíkum stuðningi og varla mikið flækjustig þar á ferð eða athugasemdir af hálfu eftirlitsstofnana.

Hæstv. innanríkisráðherra er bæði ráðherra sveitarstjórnarmála og hafnarmála og er væntanlega vel kunnugt um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og þann vanda sem íbúar þar þurfa að horfast í augu við. Vissulega má færa rök fyrir því að sá vandi sé til kominn vegna slæmra ákvarðana meiri hluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar á undanförnum árum en einnig má færa rök fyrir því að ábyrgðin liggi hjá ríkinu, einkum í kjölfar brotthvarfs hersins og því sé krafan um aðkomu ríkisins að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum réttlætanleg.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort Reykjanesbær muni fá sambærilegan stuðning og er vegna iðnaðarsvæðisins á Bakka.