144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ríkisframlag til Helguvíkurhafnar.

440. mál
[16:33]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Með lögum um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, nr. 41/2013, sem fjallaði sérstaklega um framkvæmdir þar var veitt heimild til að veita fjármuni á fjárlögum til uppbyggingar innviða í landi Bakka, meðal annars hafnarmannvirkja.

Með breytingu á hafnalögum nr. 61/2003, með síðari breytingum nr. 119/2014, sem eins og hv. þingmanni er kunnugt um voru samþykkt á Alþingi núna 28. nóvember sl., voru veittar auknar heimildir til að veita fé úr ríkissjóði til uppbyggingar hafnarmannvirkja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skilyrðin eru meðal annars að verkefnið sé á samgönguáætlun, að kostnaður við framkvæmdir rúmist innan fjárlaga og að hafnarmannvirkin séu opin fyrir almennri umferð. Þá þarf tekjuöflun hafnarinnar að vera með eðlilegum hætti, en með því er átt við að tekjustofnar séu nýttir til fullnustu allt þar til rekstur hafnarinnar er í jafnvægi. Að þeim skilyrðum öllum uppfylltum getur framlag ríkissjóðs numið allt að 60% af kostnaði hafnarinnar. Það er hins vegar Vegagerðarinnar að meta það hvort umsóknir sem berast að þessu leyti til, á grundvelli þessa ákvæðis, uppfylli skilyrði laga og um forgangsröðun í framkvæmdum.

Ég vil leggja áherslu á það, virðulegi forseti, að sú spurning sem beint er að mér snýr fyrst og fremst að þeim þáttum málsins. Hún snýr ekki að því hvernig umræðan hefur verið á Suðurnesjum vegna þeirra framkvæmda sem þar hafa verið. Við þekkjum báðar, ég og fyrirspyrjandi, forsögu þeirra mála, en fyrirspurn hv. þingmanns til mín snýr fyrst og fremst að þeim möguleikum sem eru gagnvart hafnalögum í þessu máli eins og ég skil það. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þingmanni að mér er vel kunnugt um þá þröngu stöðu sem Reykjanesbær er í vegna fjárhagsvanda og núna fyrir skömmu þurfti ráðuneytið að fallast á að útsvar yrði hækkað í Reykjanesbæ til að mæta þeim mikla vanda sem þar er. En það liggur auðvitað alveg fyrir að þær fjárfestingar sem farið hefur verið í í hafnarmannvirkjum hvíla þungt á sveitarfélaginu, enginn vafi er um það og um það þurfum við ekki að deila.

Beiðnir um fjárhagsstuðning vegna hafnarframkvæmda í Reykjanesbæ, og það mál sem hér er til umfjöllunar, eru ekki nýjar af nálinni, en með þeim breytingum á hafnalögunum sem tóku gildi núna fyrir jólin er kominn lögformlegur farvegur fyrir þessar beiðnir, og ég tel að það sé afar mikilvægt.

Næstu skref hafnaryfirvalda í Reykjanesbæ væru því að óska eftir því við Vegagerðina á grundvelli hinna breyttu hafnalaga að hafnarframkvæmdir í Helguvík verði metnar með tilliti til styrkhæfni ef hafnaryfirvöld hafa ekki gert það nú þegar. Mér er hins vegar ekki kunnugt um það. Einnig að óska eftir, að skilyrðum uppfylltum, að framkvæmdirnar verði teknar á samgönguáætlun við endurskoðun hennar sem nú stendur yfir, og vonandi mun ég hafa möguleika á að leggja það fram núna innan tíðar. Að öllum þessum skilyrðum uppfylltum ræðst það síðan við forgangsröðun framkvæmda með hliðsjón af því fjármagni sem er til reiðu hvort unnt er að verða við slíkum beiðnum.

Þá má vekja athygli á því, eins og fyrirspyrjandi raunar gerði og ég vil ítreka hér, að hæstv. iðnaðarráðherra boðaði í desember og kynnti í ríkisstjórn áform um að leggja fram frumvarp um uppbyggingu innviða í Helguvík með svipuðum hætti og gert var vegna Bakka. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið nýjastar frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að samningu slíks frumvarps og ég á von á því að það muni birtast þingmönnum næstu vikurnar.