144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

ríkisframlag til Helguvíkurhafnar.

440. mál
[16:46]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég geri líka fastlega ráð fyrir því að hv. þingmaður hafi barist mjög hatrammlega fyrir því þegar hún sat í stól fjármálaráðherra á síðasta kjörtímabili. (Gripið fram í.) Þetta mál er ekki nýtt af nálinni, við skulum hafa það alveg á hreinu. Atvinnuuppbygging á Reykjanesi hefur staðið fyrir dyrum árum saman, margir mundu segja áratugum saman, og menn hafa reynt að koma orkufrekum iðnaði fyrir í Reykjanesbæ og í nágrenni hans, og það hefur ekki síst tafist á grundvelli vandamála í orkuöflun sem hafa verið viðvarandi undanfarin ár. Það er ekki hægt að líta bara á þessa ríkisstjórn í því. Ég vil taka það skýrt fram, virðulegi forseti, að það var ekki sérstaklega mikill vilji fyrir því í tíð fyrri ríkisstjórnar, (Gripið fram í.) það var ekki sérstaklega mikill vilji fyrir því. Mér finnst bara allt í lagi að það komi fram þegar menn ræða þetta hér. (Gripið fram í.)

Hitt er annað mál og það vil ég taka skýrt fram að komið hafa athugasemdir frá ESA út af hafnarframkvæmdum á Bakka. Það þýðir að í frumvarpinu sem hæstv. iðnaðarráðherra er að undirbúa verður að taka mið af þeim sjónarmiðum sem þar eru á ferðinni. Við ætlum ekki að lenda í því að þær hafnarframkvæmdir sem farið verði í á Bakka verði með þeim hætti að standist ekki skoðun hjá ESA. [Sjá leiðréttingu innanríkisráðherra í ræðu 27. janúar kl. 14:47.] Það hljótum við öll að vera sammála um. Þess vegna tel ég rétt að bíða eftir því frumvarpi sem hæstv. iðnaðarráðherra vinnur að.

Virðulegi forseti. Ég verð að láta koma fram að sumt af því sem hér var spurt að eru spurningar sem ætti náttúrlega miklu frekar að beina til hæstv. iðnaðarráðherra en mér sem innanríkisráðherra. Það sem snýr að okkur eru hafnalögin og ég hef skýrt frá því að þar þarf að fylgja lögformlegu ferli. Ég hef fulla trú á því að yfirvöld í Reykjanesbæ muni nýta sér það og þá verður að gæta að því að þau skilyrði sem þar þurfa að vera fyrir hendi verði uppfyllt.