144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

reglugerð um vopnabúnað lögreglu.

448. mál
[16:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina til hæstv. innanríkisráðherra fyrirspurn sem að sumu leyti hefur nú verið svarað, en ekki að öllu leyti í umræðunni áðan, um vopnabúnað lögreglu. Fyrirspurn mín lýtur að efnisrökunum fyrir að halda reglugerð um vopnaburð lögreglu leyndri, hver þau eru og hvort það komi til greina að afnema leyndina. Ég ítreka það sem ég nefndi áðan, það er eðlilegt og rökrétt að mat á búnaðarþörf og tækjabúnaði lögreglu sé í höndum lögregluyfirvalda, en opinberun á þessum reglum og ákvörðunum í hversu ríkum mæli lögreglumenn hafi aðgang að skotvopnum í daglegum löggæslustörfum er pólitísk ákvörðun sem eðlilegt er að við ræðum. Þó að þau rök hafi verið sett fram á sínum tíma í framhaldi af setningu reglugerðar um vopnaburð lögreglu að best væri að hafa leynd yfir henni er að mínu viti auðvelt að færa rök fyrir því að leyndin sé mjög tvíeggjað sverð. Ég vil bara setja menn í eftirfarandi stöðu: Glæpamaður sem sér aðvífandi lögreglubíl er mun líklegri til að grípa til harkalegra aðgerða gagnvart lögreglu, gagnvart fórnarlömbum á vettvangi, ef hann grunar að í lögreglubílnum sé að jafnaði að finna skotvopn. Það er auðvelt að færa fyrir því efnisrök að auðveldur aðgangur lögreglumanna með þeim hætti að skotvopnum í daglegri eftirlitsstarfsemi geti ýtt undir harkaleg viðbrögð glæpamanna og aukið viðsjár þar með bæði fyrir lögreglumenn og almenning í landinu. Þess vegna má draga af því þá ályktun að það sé rökrétt út frá almannahagsmunum að sem mest af viðbúnaðinum sé upplýst.

Ég tók eftir því áðan að hæstv. ráðherra nefndi fordæmi frá öðrum Norðurlöndum um að þar væru að jafnaði helstu þættir þessara mála opinberir og ég tel að það gæti verið skynsamleg leið. Auðvitað viljum við ekki grafa undan möguleikum lögreglumanna á að halda uppi lögum og reglu og grípa til fullnægjandi viðbragða og þar af leiðandi kann vel að vera að einhverjir þættir þurfi að vera háðir leynd, en almenn leynd að þessu leyti er að (Forseti hringir.) mínu viti skaðleg og getur einfaldlega vakið upp óvissu meðal jafnt almennings (Forseti hringir.) og glæpamanna um við hverju er að búast þegar lögregla er að sinna löggæslustörfum.