144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

reglugerð um vopnabúnað lögreglu.

448. mál
[16:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Að vissu leyti ræddum við þetta aðeins áðan en ég tel þó engu að síður ástæðu til að svara fyrirspurninni fullum fetum hér og mun gera það. Reglur um valdbeitingu lögreglumanna og meðferð og notkun valdbeitingartækja og vopna voru settar af dómsmálaráðherra 22. febrúar 1999 af fyrrum dómsmálaráðherra Þorsteini Pálssyni. Þá voru jafnframt felldar úr gildi reglur um meðferð og notkun lögreglumanna á skotvopnum frá 1987 og reglur fyrir lögreglumenn um notkun kylfu sem voru settar 1940 sem og umburðarbréf dómsmálaráðuneytisins frá 1991–1993 um notkun úðavopna hjá lögreglunni.

Reglurnar hafa frá árinu 1999 verið undanþegnar upplýsingarétti almennings með vísan til upplýsingalaga og úrskurðar þar að lútandi. Var þar meðal annars. byggt á þeim forsendum að reglurnar hafa að geyma upplýsingar um skipulag löggæslu þar sem lýst er verklagi lögreglu þegar upp koma alvarleg mál á sviði löggæslu þar sem beita þurfi valdi. Birting reglnanna kunni því að nýtast þeim sem hyggjast fremja alvarleg afbrot og draga þar með úr fælingarmætti lögregluaðgerða.

Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort það komi til greina að afnema leyndina sem hefur verið um efni reglnanna og við endanlegt mat á því hvort reglurnar verði birtar verður sérstaklega að líta til þess hvort öryggi borgaranna sé ekki ávallt í öndvegi. Eftir að ég tók við embætti innanríkisráðherra í desember sl. óskaði ég eftir viðhorfum ríkislögreglustjóra til birtingar þessara reglna um vopnaburð lögreglu í þágu þess að auka gegnsæi í þessum málum. Ríkislögreglustjóri brást við og taldi ekkert því til fyrirstöðu að reglurnar sem nú gilda ásamt skýringum við þær reglur sem dómsmálaráðherra setti þann 22. febrúar 1999 með heimild í viðkomandi ákvæði í vopnalögum yrðu birtar í Stjórnartíðindum.

Jafnframt óskaði ég eftir því að ríkislögreglustjóri kannaði viðhorf forsvarsmanna Landssambands lögreglumanna og Lögreglustjórafélagsins til birtingar reglnanna. Niðurstaða þess samráðs lá fyrir rétt fyrir helgi. Hefur ríkislögreglustjóri nú skýrt mér frá því að loknu þessu samráði að afstaða hans hafi verið og sé sú að reglurnar megi birta opinberlega með viðeigandi hætti. Landssamband lögreglumanna hefur tekið undir þetta sem og lögreglustjórar. Einnig hefur sama viðhorf komið fram hjá Landhelgisgæslunni. Tekur ríkislögreglustjóri fram að huga þurfi að því hvort uppfæra skuli reglurnar, enda eru 16 ár frá útgáfu þeirra og það kann að vera sökum þess hversu gamlar þær eru að það sé ástæða til að líta til þess af því að þegar þær voru settar var ekki gert ráð fyrir því að þær yrðu birtar. Þetta er sjónarmið sem skiptir máli og ég þarf að hafa í huga við endanlegt mat á því hvað við tekur. Þetta má segja að sé í raun og veru óháð því hvernig framhaldið verður í málinu samt sem áður gagnvart því að setja nýjar reglur o.s.frv.

Þetta er vandmeðfarið mál og þar sem reglurnar voru settar af ráðherra dómsmála vil ég ekki taka endanlega ákvörðun um hugsanlega birtingu þeirra án þess að hafa fullvissað mig um að slíkt hafi ekki áhrif á öryggi borgaranna auk þess sem ég tel, í ljósi þess hve gamlar reglurnar eru, þörf á að líta gaumgæfilega á efni þeirra og eftir atvikum gefa út nýjar reglur á grundvelli þeirra sjónarmiða sem gilda í dag.