144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

reglugerð um vopnabúnað lögreglu.

448. mál
[16:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er bara með tvær stuttar athugasemdir. Hæstv. innanríkisráðherra las upp úr úrskurði frá 5. maí 2014 og er hér sá hluti sem mér hefur þótt heldur furðulegur, með leyfi forseta:

„Verði almenningi veittur aðgangur að reglunum kann það að nýtast þeim sem hyggjast fremja alvarleg afbrot og draga úr fælingarmætti lögreglunnar.“

Mér hefur alltaf þótt þetta mjög undarlegt vegna þess að úrskurðurinn virðist byggja á því að fælingarmátturinn felist í einhvers konar óljósri hótun um að eitthvað gerist. Mér finnst þetta svolítið bilað. Ef við hugsum um þetta út frá almennum hegningarlögum velti ég fyrir mér hvað menn væru að fara í því samhengi.

Þetta er önnur athugasemdin en hin er um að hv. málshefjandi nefndi byssur í bílum. Ég veit ekki til þess að við höfum talað mikið um að lögreglumenn gangi með byssur á sér, á persónu sinni, en það var mikið rætt um að hafa byssurnar í bílunum og það var mikið réttlætt, hafnað en samt réttlætt, og nefnt að það (Forseti hringir.) væru oft byssur í bílum úti á landi. Ég vil nefna það sérstaklega að til þess að ræða þetta efnislega þurfum við aðgang að reglunum, 19. gr. ef ég á að vera nákvæmur.