144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

reglugerð um vopnabúnað lögreglu.

448. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að hún hafi strax gengið í að kanna möguleika á opinberri birtingu þessara reglna. Vegna þess að hér var vitnað í úrskurð um aðgang að reglugerðinni er það bjargföst sannfæring mín að það sé til góðs fyrir löggæslu og fyrir öryggi lögreglumanna og öryggi borgaranna að sem mest sé uppi á borðum í þessum efnum og sem minnst óvissa og sem minnst af gráum svæðum.

Ég hef fullan skilning á því sem hæstv. ráðherra rakti, að vera kunni að reglurnar í því formi sem þær eru núna henti ekki til birtingar og að eitthvað kunni að þurfa að lagfæra þær áður en svo yrði gert. Ég met mikils þann góða vilja sem ég les úr máli hæstv. ráðherra um að gera þær þannig úr garði að þær verði opinberlega birtingarhæfar og ég held að það væri mikið heillaskref fyrir löggæsluna og til þess fallið að auka tiltrú okkar allra á löggæslunni í landinu. Þessi uppákoma í haust með byssurnar var ekki til góðs og skapaði margs konar óvissu og óöryggi. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra rakti hér fyrr í dag, að umræðan fór út um víðan völl um vopnaburð lögreglu að óþörfu í tengslum við það mál. Ég held að markviss stefnumörkun um lagareglurnar og að birta þær svo breyttar væri okkur mjög til góðs og gæti orðið til þess að auka á ný samstöðu um grundvallarviðmið löggæslunnar að þessu leyti.