144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

reglugerð um vopnabúnað lögreglu.

448. mál
[17:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég hef svo sem ekkert miklu við þetta að bæta umfram það sem ég hef þegar sagt. Þetta mál er núna til athugunar í ráðuneytinu á þeim grundvelli sem ég hef lýst. Þær athugasemdir sem hafa komið frá þingmönnum eru hluti af því sem ég er einmitt að leggja mat á við þessa ákvörðun og ég held að allir skilji að þegar um er að ræða reglur sem ekki voru samdar til birtingar þurfa menn að gæta sérstaklega að því hvernig með þær skuli fara. Á sama tíma er það líka skoðun mín að það sé varasamt að hafa hlutina með þeim hætti að það geti alið á tortryggni gagnvart þeim mikilvægu störfum sem löggæslan í landinu sinnir. Í því sambandi er mikilvægt að þær stofnanir sem um þetta mál fjalla deila einnig þeirri skoðun. Það er nokkuð sem ég held að sé mikilvægt fyrir okkur inn í framtíðina þegar við tökum næstu skref í þessu máli.